7 C
Grindavik
23. apríl, 2021

Stormar ógna tilvist mannsins

Skyldulesning

Eggert Gunnarsson hefur skrifað sína fyrstu skáldsögu.

„Ég hef haft áhuga og skoðun á loftslagsmálum frá því að ég heyrði af þeim fyrst fyrir margt löngu og hef aldrei skilið hvers vegna við höfum ekki getað lagað okkur að þessari þróun og vá,“ segir Eggert Gunnarsson en fyrsta skáldsaga hans, The Banana Garden, kom út hjá breska forlaginu Olympia Publishing í lok nóvember.

Um er að ræða vísindaskáldsögu sem fjallar um mikla storma sem ógna tilvist mannsins á jörðinni. Farið er um víða veröld og kaflar bókarinnar gerast á Íslandi, Englandi, Papúa Nýju-Gíneu og í alþjóðlegu geimstöðinni Rama.

Aðalsöguhetjunni er fylgt inn á sjóræningjastöð sem tekur yfir útsendingar BBC í þeim tilgangi að reyna að koma sem mestum og bestum upplýsingum til fólks um allan heim sem verður fyrir miklum skakkaföllum af völdum stormanna. Óprúttnir aðilar reyna að hrifsa til sín völd og margir leiðtogar heimsins falla á valinn. Áður óþekktar verur, heimsækjendurnir, koma einnig við sögu en þær heyra til hliðstæðri plánetu í öðru tímabelti.

Þá lætur athafnamaðurinn Okar Bragg (sem gæti hæglega verið frændi Elons Musks) sigla þremur skemmtiferðaskipum inn Hvalfjörð en hann sá hamfarirnar fyrir. Þar liggja skipin við bryggju þegar Rússana ber að garði. Allt fer í bál og brand en á endanum hefst uppbyggingin.

Veðurfárið orðið meira

Sagan gerist í ekki svo fjarlægri framtíð, Eggert talar um tíu til fimmtán ár héðan í frá, þegar margt hefur færst til verri vegar í heiminum vegna þróunar í loftslagsmálum og veðurfárið orðið meira. Já, hann talar um fár en ekki far í þessu sambandi. „Sagan byggist lauslega á vísindum en fyrst og síðast er þetta skáldskapur og drama.“

Eggert upplýsir að hann sé þegar með aðra bók í smíðum, þar sem hann tekur upp þráðinn og hin nýja heimsmynd skýrist betur. „Það er því eins gott að þessi seljist eitthvað, svo útgefandinn vilji halda áfram,“ segir hann hlæjandi.

Hvers vegna ekki?

Eggert vann um árabil í sjónvarpi hér heima; stjórnaði framleiðslu og leikstýrði Stundinni okkar lengi og vann einnig með Ævari Þór Benediktssyni að þátttaröðunum með Ævari vísindamanni. Að auki vann hann heimildarmyndir og tónlistarþætti. Hann hafði svo sem ekki hugsað sér til hreyfings þegar honum barst tölvupóstur frá gömlum vini, Gísla Snæ Erlingssyni, leikstjóra og skólastjóra London Film School. „Vinur vinar hans var að leita að manni til að taka við sjónvarpsstöð á Papúa Nýju-Gíneu og Gísli spurði hvort ég hefði áhuga. Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti en ég hugsaði með mér: Hvers vegna ekki?“

Eggert flaug til Dubai í starfsviðtal sem gekk vel og hann var ráðinn sjónvarpsstjóri TVWAN í Port Moresby, höfuðborg Papúa Nýju-Gíneu, en stöðin er rekin af Digicel, írsku farsímafyrirtæki sem fór svo út í sjónvarpsrekstur.

Stöðin fæst meðal annars við eigin framleiðslu, sendir út fréttir og frá keppni í ruðningi í Ástralíu.

„Það var lífsreynsla að senda út fréttirnar, sérstaklega í kosningum sem eru ekki bara skrautlegar heldur beinlínis hættulegar í Papúa Nýju-Gíneu. Maður þarf að vara sig á sumum sem taka þátt í þeim.“

Eggert ásamt heimamönnum í Goroka sem hann segir dásamlegan stað.

Eggert ásamt heimamönnum í Goroka sem hann segir dásamlegan stað.


Eftir tvö ár lét Eggert af störfum. „Þetta var mikið ævintýri en mig langaði að prófa fleira, til dæmis að ferðast meira um þetta áhugaverða land og kynnast fólkinu betur. Ég var svo heppinn að fá vinnu við háskólann í Goroka sem er magnaður staður; vinn þar fyrir rannsóknasetur sem gerir heimildarmyndir fyrir Sameinuðu þjóðirnar og fleiri. Fyrsta myndin sem ég tók þátt í fjallar um verndun dýra og áhrif þess á þorp sem taka þátt í svoleiðis verkefnum.“

Nánar er rætt við Eggert í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann íhugar nú að flytja heim á ný. 

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir