3 C
Grindavik
1. mars, 2021

Stormur í kringum Kjartan Henry í Danmörku: Var í áfalli og sakar fréttamann um lygar

Skyldulesning

Kjartan Henry Finnbogason var í aðalhlutverki þegar AC Horsens vann sigur á Vejle í dönsku úrvalsdeildinni um liðna helgi. Kjartan yfirgaf Vejle fyrr á þessu ári og gekk í raðir Horsens en læti voru í kringum félagaskipti Kjartans. Hann skoraði mark í sigri gegn sínum gömlu félögum.

Þessi 34 ára gamli atvinnumaður í knattspyrnu rifti samningi sínum við Vejle í Danmörku í október og degi síðar gekk hann í raðir Horsens skammt frá. Kjartan þekkir hverja þúfu hjá Horsens, eftir farsæla dvöl þar frá 2014 til 2018. Mikil læti voru á bak við tjöldin þegar Kjartan yfirgaf Vejle. Eftir fyrsta leik tímabilsins með Vejle fór Kjartan Henry í viðtal við danska fjölmiðla, þeir furðuðu sig á því að hann hefði byrjað sem varamaður. Íslenski framherjinn sagði hlutina umbúðalaust:

„Þetta er ótrúlega flókið, eigandi Vejle er ekki danskur, það er ekki algengt í Danmörku. Það þótti ekki heillandi að vera með 34 ára gamlan framherja, sem er engin söluvara lengur. Það var eitthvað annað en frammistaðan á vellinum sem hafði áhrif á spilatíma. Ég er eins og ég er, ég er ekki í þessu til að eignast vini, heldur til að ná árangri innan vallar. Þegar ég er spurður þá svara ég á hreinskilinn hátt, ég fór í viðtal eftir fyrsta leikinn þar sem ég var spurður út í spilatímann og var heiðarlegur. Það var ekki tekið vel í það hjá þeim sem stjórna hjá félaginu,“ sagði Kjartan í samtali við DV á dögunum um málið

Ummælin sem settu málið af stað voru. „Við erum með eiganda hjá félaginu sem hefur keypt nokkra nýja leikmenn og þeir fá tækifæri til að sanna sig,“ sagði Kjartan.

Nýr kafli í málinu:

Eftir leik helgarinnar fór málið aftur af stað en í viðtali við danska fjölmiðla sagði Kjartan Henry að það væri á ábyrgð Jon Pagh fréttamanns að hann hefði þurft að fara á Vejle. Pagh hafði tekið viðtal við Constantin Galca þjálfara Vejle nokkru eftir að Kjartan hafði látið ummælin falla í fyrstu umferð, degi síðar þurfti Kjartan að yfirgefa Vejle.

„Einn leikmaður hjá þér segir eftir leikinn við AGF að eigandinn vilji sína leikmenn í liðið og þess vegna sé það eigandinn sem velji byrjunarliðið. Er það satt?,“ sagði fréttamaðurinn við Galca þjálfara Vejle. Degi síðar var Kjartan sagt að yfirgefa félagið.

Kjartan sagði frá því um helgina að þessi spurning frá Pagh hafi orðið til þess að hann þurfti að fara. „Ég var í áfalli, tveimur vikum eftir leikinn gegn AGF þá hélt þetta áfram. Hann var líka að ljúga, það er óábyrgt af fréttamanni að segja að ég hafi sagt eitthvað sem ég sagði alls ekki,“ sagði Kjartan.

„Þetta hafði þær afleiðingar að ég mátti ekki mæta á æfinguna daginn eftir, svo var ég rekinn af þjálfaranum vegna orða sem ég lét aldrei falla.“

Jon Pagh hafnar þessu alfarið og segir það á ábyrgð Kjartans hvernig dvöl hans hjá Vejle endaði. Þá er stormur í kringum málið á milli TV3 þar sem Jon Pagh vinnur og hjá Canal 9 þar sem Kjartan var til viðtals um helgina. Forráðamenn TV3 halda því fram að Canal 9 hafi átt að ganga á Kjartan og spyrja hann frekar út í þessari ásakanir.

Málið má lesa í heild hér í dönskum miðlum.

Innlendar Fréttir