Strandveiðibátarnir hafa landað 582 tonnum

0
125

Alls hafa 414 strandveiðibátar landað 582 tonnum á fyrstu þremur dögum strandveiða. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Á fyrstu þremur dögum strandveiða lönduðu 414 bátar 582 tonnum í 851 róðri. Þorskur hefur verið 88% af heildaraflanum og ufsi 11,5%, en smá hefur verið landað af karfa og enn minna af ýsu.

Þetta má lesa úr löndunartölum Fiskistofu. Fyrirvari er þó settur á að töf getur orðið á uppfærslu tölfræðinnar.

Mestum afla hefur verið landað á svæði A, sem er frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps, alls 258,7 tonnum. Næstmestum afla hefur verið landað á svæði D þar sem strandveiðibátar hafa landað 163,6 tonnum, en svæðið nær frá Hornafirði til Borgarbyggðar. Sérstaka athygli vekur að ufsinn er fyrirferðamikill við þennan landshluta og er 21,6% af heildarafla strandveiðibátanna á svæðinu.

Á svæðinu frá Strandabyggð til Grýtubakkahrepps (B) hefur verið landað 98,8 tonnum og 60,8 tonnum hefur verið landað á svæðinu frá Þingeyjarsveit til Djúpabogshrepps (C).

Þokkaleg verð Verð á þorski og ýsu á fiskmörkuðum hafa verið með ágætum dagana 2. til 4. maí og nam meðalverð á slægðum þorski 493,7 krónur á kíló og 245,84 krónur fyrir lægða ýsu.

Verð á ufsa hefur hins vegar farið lækkandi undanfarna daga og hefur verið að meðaltali á tímabilinu 235,2 krónur á kíló af slægðum afla, en meðalverð í gær var aðeins 189 krónur.

Fjöldi strandveiðibáta eru mættir á Arnarstapa vegna strandveiða ársins 2023. Ljósmynd/Fiskmarkaður Íslands