Strandveiðimenn gera sjóklárt

0
51

Reynir Guðjónsson sjómaður í Ólafsvík. Morgunblaðið/Alfons Finnsson

„Veðurspáin fyrir þriðjudaginn lofar góðu og á strandveiðum gildir að byrja daginn snemma. Fara á sjóinn strax þegar er orðið bjart,“ segir Reynir Guðjónsson sjómaður í Ólafsvík. Hann tók helgina í að gera bát sinn, Stellu SH, sjókláran fyrir strandveiðarnar sem hefjast á morgun, 2. maí. Setja þurfti upp rúllur með færi, sökkum og önglum og sitthvað fleira. Báturinn bíður tilbúinn við bryggju í Ólafsvík og þaðan er örstutt á fengsæla fiskislóð.

„Þegar róið er héðan úr Ólafsvík gildir í raun einu hvert er farið; alls staðar er nóg af fínum fiski og mest af þorski. Þetta er allt afli sem fer svo beint á Fiskmarkað Snæfellsbæjar sem er hér við bryggjuna,“ segir Reynir sem alla jafna er sjómaður á línubát. Nú taka strandveiðarnar við sem sumarstarf, en umsvifin í þeirri sjómennsku hafa löngum verið mest við vestanvert landið. Má þar nefna útgerðarstaði eins og Arnarstapa, Ólafsvík, Patreksfjörð og Suðureyri. Einnig hefur Norðurfjörður á Ströndum komið þarna sterkur inn, en þá róa menn á Húnaflóa.

Á sl. ári gaf Fiskistofa út strandveiðaleyfi til alls 334 báta sem í tæplega 9.000 róðrum komu að landi með 6.950 tonn. Alls 92% af þeim afla var þorskur. Ætla má að svipað verði nú.