Frá vettvangi í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon
Stýrishús skipsins, sem eldur kom upp í við Njarðvíkurhöfn í nótt, stóð í ljósum logum þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Sigurður Skarphéðinsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, segir mikinn eld hafa geisað.
Sigurður segir 28 menn hafa komið að aðgerðunum en að aðkoma hafi verið mjög erfið.
„Svona eldur er eitthvað af því erfiðasta sem við eigum við,“ segir hann.
Sigurður Skarphéðinsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja. mbl.is/Kristinn Magnússon
Töldu fyrst einn vera um borð Sigurður segir að í fyrstu hafi aðeins verið talið að einn einstaklingur væri um borð, en síðan kom á daginn að þeir hafi verið fleiri.
Hann kveðst ekki vera með upplýsingar um líðan skipverjanna sem bjargað var en báðir voru illa á sig komnir í nótt. Annar hafi verið fluttur á Landspítalann en hinn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar.
Skipið sem um ræðir er Grímsnes GK-555. Skipið komst nýlega í fréttirnar þegar skipverji var handtekinn við höfnina í Reykjanesbæ í byrjun apríl þar sem um borð var 15 ára gömul stúlka sem leitað hafði verið að í Vestmannaeyjum.
Eldur kom upp í Grímsnesi GK-555 í nótt. Einn lést og tveir voru fluttir á sjúkrahús. mbl.is/Kristinn Magnússon