7 C
Grindavik
26. febrúar, 2021

Stysti dagur ársins

Skyldulesning

Hallgrímskirkja í ljósaskiptunum.

Vetrarsólstöður eru á norðurhveli jarðar í dag, 21. desember. Þann dag er sól fjærst frá norðurpóli jarðar og fyrir vikið er hann stysti dagur ársins.

Í Reykjavík kemur sól upp klukkan 11:23 í dag og sest klukkan 15:30. Í Grímsey, nyrstu byggð á Íslandi, rís sól ekki fyrr en klukkan 12:05 í dag og sest aftur 14:16.

Landsmenn geta þó horft björtum augum til framtíðar því frá og með morgundeginum er dag tekið að lengja. Að meðaltali lengist dagurinn um 5,6 mínútur á dag  2,8 mínútur í hvora átt  í höfuðborginni fram að sumarsólstöðum í júní. Lengingin er að vísu ekki línuleg og raunar hægust fyrstu vikur eftir sólstöður.

Jólastjarna á himni

Af öðrum stjörnufræðilegum merkisviðburðum má nefna að í dag verða reikistjörnurnar Júpíter og Satúrnus nær hvor annarri á himni en þær hafa verið í rúm 400 ár eða síðan 16. júlí árið 1623. Sævar Helgi Bragason vekur athygli á þessu á Stjörnufræðivefnum. Aðeins 0,1 gráða mun skilja þær að á himninum og munu reikistjörnurnar því „snertast“ og virðast nánast sem ein.

Í raun og veru skilja þó næstum 800 milljónir kílómetra reikistjörnurnar að. Satúrnus er um 1,6 milljarða kílómetra frá jörðinni en Júpíter tæpar 900 milljónir kílómetra.

Á Stjörnufræðivefnum segir að pláneturnar liggi best við athugun um klukkan 17 í dag þegar þær verða mjög lágt á lofti í suðvestri. Þegar orðið verður nógu dimmt í Reykjavík verður tvíeykið aðeins þremur gráðum ofan við sjóndeildarhringinn í Reykjavík, en 1,5 gráðum ofan hans á Akureyri. Þær hverfa síðan undir sjóndeildarhringinn um klukkustund síðar.

Ekkert megi því skyggja á þær, hvorki byggingar né fjöll, ætli menn að eygja von um að berja pláneturnar augum.

Innlendar Fréttir