Aðfaranótt sunnudags gekk sumartími í garð í flestum Evrópuríkjum. Það þýðir að klukkunni var flýtt um einn tíma og eru mörg Evrópuríki nú tveimur klukkustundum á undan okkur hér á Íslandi. En Danir gerðu gott betur en að stilla klukkuna á sumartíma um helgina. Samkvæmt lögum, sem danska þingið samþykkti 14. mars, þá var samhliða tímabreytingunni aðfaranótt sunnudags, sem átti sér stað klukkan 02, tekinn upp samræmdur alheimstími, UTC.
Flest ríki notast við UTC og raunar hafa Danir fylgt honum árum saman en þó ekki formlega. Með nýju lögunum féllu lög frá 1893 úr gildi en þau kváðu um tímamælingar í Danmörku.
Fjármálaheimurinn fagnar því að Danir hafi nú tekið upp UTV því nákvæmar tímasetningar skipta miklu máli þegar viðskipti eru stunduð með hlutabréf og annað álíka. Þá skipta millisekúndur máli og UTC er einmitt notað til þess.
Margir spyrja sig eflaust hvaða máli það skiptir að taka UTC formlega upp, klukkan hljóti nú að hafa verið rétt fram að þessu. En samkvæmt grein sem var birt í Ingeniøren fyrir fimm árum þá voru Danir 0,07 sekúndum á undan UTC. Nú er því búið að leiðrétta þetta og Danir eru komnir til nútímans úr framtíðinni.