Svarti sauðurinn í norsku konungsfjölskyldunni: Hnífur í vegg og ásakanir um heimilisofbeldi – DV

0
20

Norska konungsfjölskyldan stendur frammi fyrir erfiðu máli eftir að stjúpsonur Hákonar krónprins var handtekinn vegna gruns um ofbeldi gegn kærustu sinni um þar síðustu helgi. Marius Borg Høiby, 27 ára sonur Mette-Marit úr fyrra sambandi, var handtekinn eftir að málið var tilkynnt. Til að byrja með voru litlar upplýsingar birtar og í norskum fjölmiðlum talað um líkamsárás, skemmdarverk og deilur á milli Mariusar og annarrar konu í íbúð. Nú hefur Se og Hør í Noregi birt myndir úr íbúðinni sem sýna meðal annars skemmdir á innanstokksmunum og hníf sem búið er að stinga í vegg.

Þar sem Marius er aðeins stjúpsonur Hákonar gegnir hann ekki konunglegum skyldum og er ekki í erfðaröð krúnunnar. Málið hefur þó valdið titringi innan fjölskyldunnar og segir breska blaðið The Times að Marius gæti átt yfir höfði sér eins árs fangelsi vegna málsins.

Marius átti í ástarsambandi við stúlkuna sem hann er grunaður um að hafa ráðist á, en þau höfðu verið saman um skamma hríð. Er hann meðal annars sagður hafa hótað því að kveikja í fötum hennar.

Eftir að birtar voru fréttir um meint heimilisofbeldi Mariusar steig önnur fyrrverandi kærasta hans fram, Juliane Snakkestad, og lýsti því að hún hefði orðið fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi meðan á sambandinu stóð.

Norska ríkisútvarpið, NRK, greindi frá því á dögunum að lögregla hefði meðal annars lagt hald á hníf við rannsókn málsins en ekki liggur fyrir hvort það sé hnífurinn sem sést á forsíðu Se og Hør. Ekki leikur þó grunur á að Marius hafi beitt hnífnum gegn kærustu sinni.

VG segir frá því í morgun að Marius sé grunaður um að hafa slegið til konunnar og tekið hana kyrkingartaki. Þá er hann sagður hafa hótað henni símleiðis. Hákon krónprins hefur tjáð sig lítillega um málið en það gerði hann þegar hann heimsótti Ólympíuleikanna í síðustu viku. Sagði Hákon að það væri alltaf alvarlegt ef lögregla væri með mál til rannsóknar. Hann taldi þó ekki rétt að úttala sig nánar um málið á þeim tíma.