3 C
Grindavik
1. mars, 2021

Svefnlausir foreldrar sameinast -„Ég held ég skilji núna hug­takið uppvakningur“

Skyldulesning

Ósk Gunnarsdóttir útvarpskona er þriggja barna móðir í Kópavoginum sem hefur ekki sofið heila nótt í rúmlega ár og stofnaði nýverið hóp á Facebook þar sem svefnvana foreldrar geta stutt hverjir við aðra.

„Ég var í öðrum kveisu­mömmuhóp á Facebook en fannst sjálfri vanta vettvang þar sem foreldrar deila svefnvandamálum barna sinna og koma með ráð til hver annars, líka bara til að fá stuðning frá hver öðrum.“ Hópurinn heitir Svefnlausir foreldrar og hafa á þeirri rúmu viku frá því að hann var stofnaður skapast mjög líflegar umræður á síðunni milli hátt í 400 þreyttra for­eldra.

„Það er góð tilfinning að vita að þú sért ekki einn í þessu og gott að hreinlega pústa smá út. Við erum öll að gera okkar besta,“ segir Ósk sem hélt um tíma að hún væri að tapa geðsheilsunni eftir óteljandi vökunætur með dóttur sína Maríkó.

Uppvakningur með húmor

Hún segir eiginmanninn og húmorinn hafa bjargað því sem bjargað varð á erfiðustu tímapunktunum. „Við tökum þetta oft með húmorinn að vopni og vitum að þetta er tímabundið ástand. En Ma­ríkó Máney fæddist 08.08.19 og er nýbyrjuð að sofa lengur en klukkustund í senn að nóttu til. Annars er ég held ég bar­asta að klára allar bækurnar á Storytel, hugleiðsla er líka mikilvæg, þá kemst maður í ró.“

Hvernig tilfinning er það að vera aldrei útsofin?


„Ég held ég skilji núna hug­takið uppvakningur ansi vel, skynfærin brenglast, minnið fer út um gluggann og streitan tekur öll völd,“ segir Ósk.

Allt reynt

Ósk segist hafa reynt allt en Maríkó er fyrsta kveisubarn þeirra hjóna svo þau komu af fjöllum þegar erfiðleikarnir byrjuðu. „Ég held svona í al­vöru að við höfum prufað allt. Gestur Pálsson barnalæknir bjargaði okkur á erfiðasta tímabilinu en þá var hún org­andi stanslaust oft frá sirka 22 – ­04, hún fór á lyf en þetta hætti aldrei samt alveg. Við prufuðum svefnráðgjafa hjá LSH, bowentækni, Jurtaapó­tekið var prófað og alls konar remedíur. Þegar barnið þitt sefur ekki þá reyna foreldrar allt. Svefnleysi var nú notað sem pyntingaraðferð á sínum tíma. Það er erfiðast í þessu að sjá barnið sitt kveljast og geta ekkert gert til að hugga það.“

Alls konar vandamál

„Það skemmtilega við hópinn er að þarna eru foreldrar með börn á öllum aldri með alls kyns svefnvandamál. Pabbarnir eru líka duglegir að koma með ráð sem mér fannst vanta til dæmis inni á Mæðratips. Flestir eru þó með kveisubarn eða hafa átt á ein­hverjum tímapunkti.“Hún segir ráðin sem fólk er að gefa hvert öðru vera ýmiss konar. „Alls konar ráð varð­andi til dæmis lyf sem bak­flæðisbörnum er gefið og hvað virkaði best, börn sem vilja drekka vatn endalaust á næt­urnar, hvaða róla eða bolti er bestur fyrir kveisukríli.“

Fólk er einnig að mæla með bókum og til dæmis svefnskífum og öppum sem geta hjálpað til við að fylgjast með svefnvenjum þegar dagarnir renna saman í svefnlausri þoku. „Svefn er vanmetinn þar til þú færð hann ekki. Fólk á að vera þakklátt fyrir góðan svefn því hann er alls ekki sjálfsagður hlutur,“ segir Ósk og bendir fólki í sömu stöðu á að kíkja á hópinn Svefnlausir foreldrar.

Innlendar Fréttir