4 C
Grindavik
9. maí, 2021

Svo djö … glöð

Skyldulesning

BreytastÍ gærkvöldi var ég með sjónvarpið á, gosið á RÚV, ég horfi ekki á annað, eðlilega. Las í smástund uppi í rúmi, slökkti ljósið og kom mér vel fyrir með Krumma vandlega skorðaðan til fóta. Þegar ég uppgötvaði að ég hefði gleymt að slökkva á sjónvarpinu og fjarstýringin á skrifborðinu, hófst stríð, ekki beint þögult því tónninn var á sjónvarpinu og ég vaknaði nokkrum sinnum við það. En fram úr færi ég ekki! Svo fór að lokum að ég sigraði og sjónvarpið slökkti á sér.

Gaman að hafa betur í svona „störukeppni“ við tilfinningalaust tæki sem minnir mikið á konu sem svarar stundum í síma hjá fyrirtæki/stofnun sem ég þarf stöku sinnum að hafa samband við. Ef ég þakka henni of hjartanlega fyrir, hrímar símtólið, hún fnæsir og skellir á. Enda sagði ég síðast: „Þakka þér kærlega fyrir, þarna bjargaðir þú mér alveg,“ sem útskýrir andstyggð hennar. Ég þarf nokkrum sinnum á ári að erindast fyrir aðra manneskju og finnst alltaf hálffúlt að lenda á þessari. Hinar eru dásamlegar. 

Ung kona sem vann í Búnaðarbankanum á Hlemmi þar sem ég kom oft vegna vinnunnar, sagði mér á skemmtistað að hún þyldi mig ekki, ég væri svo montin og alltaf svo djöfulli glöð. Hún vissi auðvitað ekki að ég væri Þingeyingur og þá er skylda að vera montinn en gleðin kemur úr Skagafirðinum, held ég.

Það er alltaf verið að reyna að breyta fólki. Maður sem ég deitaði einu sinni reyndi sitt besta: „Svona segir maður ekki, nei, þetta er ekki rétt, sjáðu, svona …“ en hann var of seinn, ég var komin yfir fertugt og öruggari með mig, þakkaði honum bara kærlega fyrir að segja mér hvernig ég ætti að tala og hvernig hugsa. Þá var ekki búið að finna upp orðið hrútskýringar. Annars fínn gaur.

Mér finnst alltaf jafnfyndið þegar manneskja fellur fyrir annarri manneskju, verður ástfangin/n af viðkomandi og hefst svo handa við að reyna að breyta því sem hann/hún féll fyrir á sínum tíma. Eitt er að líka ekki við fólk, annað er að hafa þessa þörf fyrir að breyta því svo það uppfylli einhver skilyrði. Mér líkar vel við langflestar manngerðir. Það var bara á meðan ég gekk ekki með gleraugu sem ég var talin snobbuð og heilsaði bara sumum.

Allir vita hvernig á að lækna þunglyndi, maður sér það bara á Facebook! Ég las í aðsendri grein í blaði, ekki eftir lækni þó, að kamillute og gönguferðir virkuðu vel gegn því. Fjandans gleðin virðist erfiðari viðureignar, en te kæmi þó sterkt inn hjá mér og ég hata gönguferðir! Ég er sennilega búin að leysa þetta!


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir