Niðurstöður rannsóknar sýna að karlar hafa tilhneigingu til að bæta á sig kílóum á meðan á meðgöngu barnsmóður þeirra stendur. Það er auðvitað rökrétt og náttúrulegt að konur þyngist á meðgöngu en það er kannski svolítið undarlegt að feðurnir þyngist einnig. Og þetta snýst ekki um eitt eða tvö kíló miðað við niðurstöður rannsóknar LighterLife Fast. Rannsóknin náði til 1.500 feðra að sögn LadBible. Að meðaltali þyngdust feðurnir um 8,5 kíló á fyrsta árinu eftir að þeir urðu feður samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar.
Einnig var rannsakað hvenær eða hvernig hinir nýbökuðu feður tóku eftir að þeir höfðu bætt aðeins á sig.
25% sögðust hafa tekið eftir því þegar þeir sáu ljósmyndir af sjálfum sér.
27% áttuðu sig á þessu þegar fötin þeirra voru allt í einu orðin of lítil.
15% tóku eftir því þegar þeir urðu móðir af að leika við börnin sín.
26% tóku eftir þyngdaraukningunni í tengslum við önnur heilsufarsvandamál.
Aðrar rannsóknir hafa sýnt að nýbakaðir feður hafa að meðaltali 74 mínútum styttri tíma afgangs á dag til að nýta í frístundir. Þennan tíma var meðal annars áður hægt að nota til líkamsræktar.
Þessar 74 mínútur nýta feðurnir í staðinn til að leika við börnin sín eða annað tengt þeim. Þetta og minni svefn og þar með minni orka er að sögn ástæðan fyrir þyngdaraukningunni að sögn Washington Post.