3 C
Grindavik
28. febrúar, 2021

„Sýgur úr manni lífsþróttinn“

Skyldulesning

Björn Teitsson var við nám í Weimar í Þýskalandi í …

Björn Teitsson var við nám í Weimar í Þýskalandi í tvö ár. Hann flutti heim í ágúst, en enn greiðir hann fyrir netið í íbúðinni.

Ljósmynd/Krabbameinsfélagið

Björn Teitsson flutti til Íslands frá Þýskalandi í ágúst í fyrra og sagði um leið upp heimilisnetinu sem hann hafði verið með hjá fjarskiptafélaginu O2. 

Þó að viðmótið sem hann mætti á skrifstofu O2 hafi verið undarlegt í flesta staði óraði hann á þeim tíma ekki fyrir því að hálfu ári síðar væri hann enn að borga fyrir þjónustuna, sem hann er löngu hættur að nýta sér.

Það hefði þó kannski átt að hringja viðvörunarbjöllum þegar honum var gert ljóst að til þess að rjúfa samninginn væri ekki nóg að mæta á staðinn, heldur þyrfti hann að senda fyrirtækinu handskrifað bréf á skrifstofu þess í Nurnberg eða í versta falli senda fax.

Björn hlýddi því en allt kom fyrir ekki. Það er engin leið að segja upp áskriftinni: „Þetta er eins og að vera staddur í existensíalískri skáldsögu þar sem maður er að hlaupa eftir endalausum gangi fullum af hurðum en þegar maður tekur í þær eru þær allar læstar,“ lýsir Björn.

Fax í uppáhaldi

Með öðrum orðum virkar greinilega ekki að mæta á staðinn, það virkar heldur ekki að hringja, ekki að senda tölvupóst, ekki að senda Facebook-skilaboð og ekki að senda fax, sem er þó að sögn Björns eftirlætissamskiptaform fyrirtækisins. 

„Auðvitað er það bráðfyndið að það sé bókstaflega ómögulegt að segja upp internetáskrift hjá einu stærsta fjarskiptafyrirtæki heims nema með fjarskiptamáta sem var síðast notaður þegar Bill Clinton var forseti Bandaríkjanna.“

Björn nær einfaldlega ekki samband við fyrirtækið, þrátt fyrir að reyna daglega að senda þeim skilaboð á Facebook og þrátt fyrir að hafa síðast sent fax frá Íslandi í desember.

O2 er alþjóðlegt fjarskiptafélag, sem starfar víða í Evrópu, meðal …

O2 er alþjóðlegt fjarskiptafélag, sem starfar víða í Evrópu, meðal annars í Þýskalandi.

AFP

Vélmennin eina tengingin

Að svo komnu máli segist hann vera kominn í stemningu fyrir hópmálsókn eins og þessa hér, þar sem sama félag í Bretlandi var sektað um tæpa tvo milljarða vegna bellibragða gagnvart áskrifendum. Hann auglýsti nýverið eftir góðum þýskum lögfræðingi í málið.

Mánaðargjaldið er upp á 32 evrur, andvirði um 5.000 króna. Björn segir þetta ekki upphæð sem setur mann á hausinn, en þetta sé orðið prinsippmál. „Stærsti draumurinn er bara að sleppa. Ég nenni þessu ekki lengur, þetta bókstaflega sýgur úr manni lífsþróttinn að standa frammi fyrir tíu þúsund manna fyrirtæki algerlega vanmáttugur um hver einustu mánaðarmót,“ segir hann.

Úr því að Björn neitar að láta bugast og loka þýska bankareikningnum sínum til að tryggja að fleiri greiðslur séu ekki inntar af hendi, er það eina í stöðunni fyrir hann enn um sinn að ræða við sérþjálfuð vélmenni sem sitja fyrir svörum á Facebook-síðu fyrirtækisins.

Þau hafa ríka þjónustulund þau Anna, Alexandra og Niko og eru alltaf til þjónustu reiðubúin. „Þau mega reyndar eiga það, elsku bottarnir, að þau eru mjög kurteis. Þau kveðja til dæmis alltaf með LG, eða liebe Grüsse, og bjóða mér að hafa samband aftur.“

Innlendar Fréttir