Sýnikennsla Stefáns: „Ef að þú værir þarna þá myndi ég skjóta í hausinn á þér“ – Vísir

0
73

Sýnikennsla Stefáns: „Ef að þú værir þarna þá myndi ég skjóta í hausinn á þér“ Arnar Daði Arnarsson og Stefán Rafn Sigurmannsson brydduðu upp á nýjung í íslensku sjónvarpi í gærkvöld eftir sigur Hauka á Aftureldingu í undanúrslitum Olís-deildarinnar í handbolta.

Stefán Rafn, sem er leikmaður Hauka, fékk míkrafón á treyjuna sína og svaraði spurningum Arnars Daða um ýmislegt varðandi það hvernig hann spilar handbolta, og sýndi svörin sín í verki.

Áhorfendur fengu þannig að sjá hvað Stefán Rafn, sem er reynslumikill atvinnumaður og fyrrverandi landsliðsmaður, er að hugsa og reyna að gera þegar hann spilar, bæði í vörn og sókn. Þetta var sýnt í Seinni bylgjunni strax eftir dramatískan sigur Hauka og má sjá brot úr þættinum hér að neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Stefán Rafn með sýnikennslu

Stefán Rafn fór meðal annars yfir það sem hann hefur í huga í varnarleiknum, og hvernig hann þarf að passa það að hornamaður andstæðinganna geti ekki laumað sér inn á línu.

„Það var þannig að ég byrjaði í handbolta hjá Aroni Kristjánssyni, og svo fór ég til Gumma Gumm, og ef þú færð eina svona „skítainnleysingu“ á þig þá spilar þú bara ekki meira. Ég reyni því að standa við línuna og sleppa við það, og stend þá frekar framar þegar línumaðurinn er hérna og ekki séns fyrir hornamanninn að hlaupa inn,“ sagði Stefán Rafn.

Hann fékk svo bolta í hönd og var spurður út í það hvað hann hugsi í loftinu, eftir að hafa hoppað inn úr vinstra horninu til að skora:

„Ekki neitt eiginlega bara. Ef að þú værir þarna þá myndi ég skjóta í hausinn á þér,“ sagði Stefán Rafn við Arnar Daða, en bætti strax við að hann væri nú að djóka.

„Við reynum að horfa, sjá hvernig markvörðurinn eltir okkur,“ sagði Stefán og lýsti því hvernig nær- eða fjærhornið verður ýmist fyrir valinu, eins og sjá má í myndskeiðinu hér að ofan.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 krónur á mánuði.