1 C
Grindavik
28. nóvember, 2020

Tal um líkamsrækt hafi valdið tjóni og æfingaskömm

Skyldulesning

Líkamsræktarstöðvar verða lokaðar um sinn.

Líkamsræktarstöðvar verða lokaðar um sinn.

mbl.is/Golli

„Viðbrögðin eru náttúrlega blendin, þetta er hundleiðinlegt en maður hefur bara skilning á þessu á sama tíma. Maður verður bara að taka þátt í þessu eins og aðrir,“ segir Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins, í kjölfar fregna þess efnis að ekki verður hægt að opna líkamsræktarstöðvar fyrr en 2. desember í fyrsta lagi vegna áframhaldandi sóttvarnaráðstafana. Þá segir hann að ímynd líkamsræktarstöðva hafi beðið hnekki eftir að hópsmit kom upp í íþróttafélagi í Kópavogi.  

Þröstur segir þó nokkrar væntingar til lokunarstyrkja sem ríkisstjórnin kynnti fyrir skömmu. „Við vonum að þetta muni hjálpa okkur í gegnum þetta. Fyrri lokunin var í níu vikur og hjó verulega í. Nú gerir maður sér vonir um að sem allra fyrst verði hægt að sækja um þessa nýju lokunarstyrki hjá skattinum,“ segir Þröstur. 

Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins.

Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins.

Vikulegt tap upp á tugi milljóna króna

Hann segir að vikulegt tap vegna lokana hlaupi á tugum milljóna króna. „Svo er það miklu frekar afleidda tjónið sem verður af þessu. Það eru einhverjir að hætta og það koma engar nýjar áskriftir inn. Það mun því taka 1-3 ár að fá viðskiptavini til baka í áskriftir. Það er held ég miklu alvarlegra fyrir okkur heldur en þessi lokun núna að því gefnu að lokunarstyrkirnir muni skila sér eins og maður er að vonast til,“ segir Þröstur. 

Spurður hvort að hann hafi vonast eftir því að hægt yrði að opna núna segir hann að engar væntingar séu til þess fyrr en grænt ljós verði gefið frá yfirvöldum. 

Ósáttur við tal um smit á líkamsræktarstöð 

Eins og fram hefur komið er stærsta hópsmitið sem komið hefur upp tengt hnefaleikafélagi í Kópavogi. Sporthúsið hefur aðsetur í Kópavogi og segir Þröstur að sökum þess hvernig yfirvöld hafa talað um hópsmit á líkamsræktarstöð séu margir sem tengi það við Sporthúsið og líkamsræktarstöðvar að ósekju. „Hnefaleikafélagið er íþróttafélag en ekki líkamsræktarstöð. Það er skilgreint sem svo hjá ÍSÍ, hjá þeim sjálfum og hjá fyrirtækjaskrá. Ef þetta smit væri komið úr fótbolta þá væri ekki talað um það sem líkamsræktarstöð,“ segir Þröstur.  

Þröstur telur að tal yfirvalda um smit í líkamsrækt, fremur …

Þröstur telur að tal yfirvalda um smit í líkamsrækt, fremur en í íþróttafélagi, hafi valdið ímynd líkamsræktarstöðva skaða.

Ljósmynd/Almannavarnir

Hann segir að fyrir vikið finni hann fyrir því að sumir viðskiptavina Sporthússins séu haldnir æfingaskömm í ljósi þess að sumum finnist starfsemin umdeild á þessum faraldurstímum. „Æfingaskömm er raunveruleg og fólk er farið að óttast líkamsræktarstöðvar eins og það séu stóru smitstaðirnir,“ segir Þröstur.  

Innlendar Fréttir