5.4 C
Grindavik
18. maí, 2021

Talar um „martröð“ í nýjum heimildaþáttum

Skyldulesning

Þórólfur Guðnason talar um algjöra martröð í stiklunni.

Þórólfur Guðnason talar um algjöra martröð í stiklunni.

Ljósmynd/Skjáskot

Fyrsta stiklan úr heimildaþáttaröðinni Stormur sem fjallar um baráttuna við Covid á Íslandi hefur verið opinberuð. Þáttaröðin er í sex hlutum og verður tekinn til sýningar í kringum komandi áramót á RÚV. 

Í stiklunni má sjá þegar Víðir Reynisson grætur, Þórólfur Guðnason segir eitthvað vera algjöra martröð og forsætisráðherra talar um hættuástand.

Í þáttunum er saga Covid-19 á Íslandi sögð út frá ýmsum hliðum með áherslu á mannlegan þátt farsóttarinnar. Meðal annars er brugðið upp mynd af því sem gerðist baksviðs hjá þríeykinu, baráttu sjúklinga við að komast í gegnum veikindin með aðstoð ástvina og hjúkrunarfólks, álaginu á gjörgæslu- og Covid-göngudeildum Landspítalans, smitrakningu á heimsvísu, rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar og hvernig fólk leysir stór og krefjandi verkefni í veiruóveðri sem gengur yfir allan heiminn og setti hann á hvolf.

Víðir Reynisson á einlægu augnabliki.

Víðir Reynisson á einlægu augnabliki.

Ljósmynd/Skjáskot

„Við byrjuðum í tökum á þáttunum í mars 2020 og höfum fylgt eftir fjölmörgum einstaklingum í gegnum þetta viðburðaríka og erfiða ár. Það sem stendur upp úr hjá mér er að hafa fengið tækifæri til að vera baksviðs og mynda atburðarásina og fólkið sem hefur staðið í þessari baráttu frá byrjun. Þetta hefur verið magnað ferðalag og í stiklunni sem við frumsýnum í dag sjáum við örlítið brot af efninu,“ segir Jóhannes Kr. Kristjánsson sem vinnur að þáttunum ásamt Sævari Guðmundssyni leikstjóra.

Tæplega 300 tökudagar

„Fram undan er mikil klippivinna því við erum að vinna með tæplega 300 tökudaga og sögurnar sem við náum utan um eru mjög sterkar. Þær eru af öllum stærðum og gerðum. Dramatískar erfiðar sjúkrasögur, hasarinn í kringum þríeykið, fyndin eða skemmtileg uppátæki og gullfallegir persónulegir sigrar eru bara brot af þeim sögum sem við sýnum í þessum þáttum. Það sem gerir þetta sérstaklega áhugavert er að þetta er hlið faraldursins sem fólk hefur aldrei fengið að sjá áður,“ segir Sævar. 

Jóhannes Kr. og Sævar við tökur á þáttunum á vestfjörðum …

Jóhannes Kr. og Sævar við tökur á þáttunum á vestfjörðum síðasta sumar.

Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

„Þessi þáttaröð verður á allan hátt einstök enda mun hún hafa að geyma stórkostlega mikilvægar sögur, upplýsingar og heimildir um fordæmalausa tíma sem afar þýðingarmikið og hollt verður fyrir þjóðina að geta rifjað upp og rýnt í nauðsynlegu samhengi og úr hæfilegri fjarlægð þegar kemur að því að hún verður sýnd á RÚV upp úr komandi áramótum,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri sjónvarps hjá RÚV. 

Það eru framleiðslufélögin Purkur og Reykjavík Media sem standa að framleiðslunni. Framleiðendur eru Sævar Guðmundsson, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Anna Karen Kristjánsdóttir, Brynja Gísladóttir og Björn Steinbekk. Klipping er í höndunum á Heimi Bjarnasyni og Sævari Guðmundssyni.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir