6 C
Grindavik
1. desember, 2020

Talí­banar firra sig á­byrgð á mann­skæðri árás

Skyldulesning

Minnst átta létust og 30 særðust eftir eldflaugaárás á íbúðahverfi í Kabúl, höfuðborg Afganistan. Stutt er í að fulltrúar Bandaríkjastjórnar og Talíbana haldi friðarviðræður, en Talíbanar hafna því að bara ábyrgð á árásinni.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir innanríkisráðuneyti Afganistan að um 20 skeytum hafi verið skotið inn í íbúðarhverfi úr tveimur bílum í morgun. Talsverðar skemmdir urðu á þó nokkrum byggingum og bílum.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun síðar í dag funda með fulltrúum Talíbana í Doha, höfuðborg Katar, með það fyrir augum að ná árangri í yfirstandandi friðarviðræðum.

Fyrr í þessari viku tilkynnti stjórn Donalds Trumps, fráfarandi Bandaríkjaforseta, um að kalla ætti 2.000 bandaríska hermenn heim frá Afganistan fyrri miðjan janúar. Ákvörðunin hefur verið gagnrýnd þar sem sérfræðingar hafa áhyggjur af því að takmörkuð viðvera bandaríska hersins í Afganistan myndi draga úr getu þarlendra stjórnvalda til að verjast uppgangi Talíbana og annarra herskárra sveita á svæðinu.

Eldflaugarnar lentu í mið- og norðurhluta Kabúl, meðal annars nálægt svæði sem hýsir sendiráð og alþjóðleg fyrirtæki. Samkvæmt tilkynningu frá íranska sendiráðinu urðu skemmdir á húsnæði þess, en engan sakaði.

Í yfirlýsingu höfnuðu Talíbanar því að bera ábyrgð á árásinni og sögðust ekki „skjóta blint á opinbera staði.“ BBC greinir frá því að hópur tengdur Íslamska ríkinu, eða ISIS, beri ábyrgð á tveimur árásum í Kabúl á síðustu vikum, þar sem hátt í 50 létu lífið.

Innlendar Fréttir