Tannlæknir grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína – Færði henni blásýrusjeik til að geta byrjað nýtt líf með kollega – DV

0
159

Tannlæknirinn James Toliver Craig, frá Denver í Colorado-fylki í Bandaríkjunum, er í haldi lögreglu grunaður um að hafa ráðið eiginkonu sinni, Angelu, bana. Er James sagður hafa komið fyrir eitri í prótínsjeikum sem eiginkonan lagði sér reglulega til munns og það hafi orðið henni að aldurtila. Hjónin áttu sex börn saman en talið er að tannlæknirinn svívirðilegi hafi ætlað sér að hefja nýtt líf með ástkonu sinni sem er svæfingarlæknir. Breski miðillinn Guardian greinir frá.

Banameinið reyndist vera blásýra Ódæðið átti sér stað í síðustu viku en þá komu Craig-hjóninn á spítala í Denver vegna veikinda Angelu. Hún hafði kvartað undan slæmum höfuðverkjum og svima en James skutlaði henni á spítalann. Ástand Angelu fór ört versnandi og eftir að læknar höfðu neyðst til þess að setja hana í öndunarvél var hún úrskurðuð látin nokkru síðar.

Veikindi Angelu þóttu grunsamleg og fljótlega kölluðu starfsmenn spítalans til lögreglu enda var farinn að leika grunur á um að eitthvað misjafnt hefði átt sér stað. Hún hafði dáið af blásýrueitrun.

Böndin beinast að eiginmanninum Böndin bárust fljótt að eiginmanninum og fljótlega kom í ljós að hann hafði pantað hylki af blásýru á læknastofu sína nokkru fyrir dauðsfall Angelu. Sú uppgötvun var gerð því að samstarfsmaður James þótti pöntunin undarleg og sá sig knúinn til að tilkynna málið til lögreglu.  Þá kom einnig í ljós að James hafði leitað eftir upplýsingum á netinu um hvernig ætti að koma einhverjum fyrir kattarnef án þess að neinn grunur kviknaði.

Þegar lögreglumenn fengu heimild til að skoða síma James kom í ljós fjölmörg klúr skilaboð til konu í Texas sem var menntuð í tannréttingum. Sú hafði meðal annars gert sér ferð til Denver á meðan Angela lá banaleguna.

Að lokum þóttu sönnunargögnin orðin næg og var James handtekinn á heimilinu sínu síðastliðinn sunnudag. Í umfjöllun Guardian kemur meðal annars fram að James hafi haldið því fram að Angela hafi glímt við sjálfsvígshugsanir og hann því aðstoðað hana við að enda jarðvist sína.

Þegar loks verður réttað yfir James Toliver Craig má hann búast við lífstíðarfangelsi fyrir glæp sinn.