-1 C
Grindavik
30. nóvember, 2020

Telja að Obamacare muni halda velli

Skyldulesning

Í þriðja sinn mun Hæstiréttur Bandaríkjanna taka afstöðu til hvort Affordable Care Act, oft kallað Obamacare, stríði gegn stjórnarskrá landsins. Þetta sjúkratryggingakerfi hefur verið stór þyrnir í augum Donald Trump og fleiri Repúblikana. Málflutningur vegna kröfu nokkurra ríkja landsins, sem njóta stuðnings ríkisstjórnar Trump, fór fram á þriðjudagskvöldið.

Fréttastofur segja að ekki sé útlit fyrir að Hæstiréttur muni fallast á kröfu um að kerfið verði dæmt ólöglegt. Ríkin halda því fram að ákvæði laganna um að hægt sé að dæma fólk til greiðslu sektar ef það er ekki með sjúkratryggingu brjóti gegn stjórnarskrá landsin. Þetta ákvæði var þó þynnt alveg út fyrir þremur árum þegar þingið ákvað að sektarupphæðin skyldi vera núll dollarar. Þetta ákvæði er eitt það mikilvægasta í lögunum og vilja Texas og fleiri ríki láta reyna á hvort það stríði gegn stjórnarskránni og þannig gera út af við Obamacare. Dómstóll í Texas hefur áður kveðið upp úr um að fyrrgreint ákvæði stríði gegn stjórnarskránni.

Brett Kavanaugh og John Roberts, sem eru íhaldssamir dómarar við Hæstarétt, telja ekki að þetta ákvæði sé grundvöllur fyrir algjöru afnámi Obamacare. Kavanaugh sagði að nóg sé að fjarlægja þennan hluta úr lögunum og þá geti þau áfram verið við lýði. New York Times skýrir frá þessu.

John Roberts er sömu skoðunar. „Þingið lét aðra hluta laganna halda sér þegar það lækkaði sektina í núll,“ benti hann á í tveggja tíma málflutningi sem fór fram í gegnum fjarfundabúnað. Ekki er reiknað með að dómur hæstaréttar verði kveðinn upp fyrr en í júní.

Í kosningabaráttunni 2016 hét Trump því að leggja Obamacare niður og koma sínu eigin sjúkratryggingakerfi á sem átti að hans sögn að vera miklu betra. En hann hefur ekki enn kynnt neinar tillögur að því kerfi.

Obamacare hefur áður lifað tvær málshöfðanir fyrir hæstarétti af. Stuðningsfólk Obamacare segir að ef því verður kastað á haugana hafði það í för með sér að milljónir Bandaríkjamanna missi sjúkratryggingar sínar.

Innlendar Fréttir