Telja rallið bestu mæliaðferð fyrir grásleppuna

0
124

Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir rall bestu aðferðina sem kostur er á þegar stofnmæling grásleppu er annars vegar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grásleppusjómenn hafa nokkrir rætt við blaðamann og undrað sig á því hvers vegna grásleppustofninn sé mældur með trolli í ralli Hafrannsóknastofnunar og ekki með veiðarfærum sem stuðst er við þegar tegundin er veidd.

Var því Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, beðinn um að skýra málið og birtust svör hans nýverið í Morgunblaðinu.

„Gögn frá grásleppum með merki sem skrá m.a. dýpi fisksins hafa sýnt að grásleppa stundar reglulegt lóðrétt far frá yfirborði niður við botn á þeim árstíma þegar stofnmælingar botnfiska í mars fara fram. Með öðrum orðum, grásleppu er að finna niður við botn að hluta til á þessum árstíma og er því veiðanleg í botnvörpu, líkt og er notuð í stofnmælingum botnfiska. Þá hafa greiningar á árlegum vísitölum frá leiðangrinum sýnt góða samsvörun við sveiflur í afla grásleppu á sóknareiningu. Það er því mat Hafrannsóknastofnunar að vísitala frá stofnmælingu botnfiska sé góður eða að minnsta kosti nothæfur mælikvarði á þróun stofnstærðar grásleppu,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur segir að á rýnifundi um stofnmat hrognkelsis í nóvember 2020 hafi verið skoðaðir möguleikar á að nota hrognkelsavísitölur úr nokkrum mismunandi leiðöngrum við mat á stærð stofnsins. „Sú skoðun sýndi að stofnmæling botnfiska væri enn eini leiðangurinn sem gæfi nothæfar vísitölur til grundvallar að ráðgjöf. Byggðist það m.a. á fylgni þeirra vísitalna við afla á sóknareiningu og skörun á yfirferð leiðangurs og útbreiðslu stofnsins.“

Ekki þótti gerlegt að nota vísitölur frá öðrum leiðöngrum. „Þannig var stofnmæling botnfiska að hausti með of mikla óvissu sem tengist lítilli veiðni hrognkelsis að haustlagi, netarall stofnunarinnar með þorskanetum í apríl var óheppilega tímasett með tilliti til veiða hrognkelsis og hvenær ráðgjöf yrði tilbúin, og loks var makrílleiðangur í júlí metinn ónothæfur þar sem þekking á stofngerð hrognkelsa.“