Telur sig vita hver Kobbi kviðrista var – Sjúkur lögreglumaður sem hataði konur – DV

0
112

Kobbi kviðrista (e. Jack the ripper) var mögulega sjúkur lögreglumaður sem hataði konur. Þetta er að minnsta kosti kenning sagnfræðingsins Rod Beattie sem sett er fram í nýrri bók hans  Jack The Ripper – The Policeman: A New Suspect og byggir á tveggja áratuga rannsóknum.

Morðinginn sem aldrei fannst Kobbi kviðrista er einn alræmdasti raðmorðingi sögunnar en hann myrti fimm vændiskonur,Mary Ann Nichols, Annie Chapman,  Elizabeth Stride, Catherine Eddowes og Mary Jane Kelly á rúmlega tveggja mánaða tímabili í Whitechapel-hverfi Lundúna árið 1888 sem olli verulegri skelfingu í borginni. Morðin voru líka ógeðfelld í meira lagi enda risti raðmorðinginn líkin á hol.

Aldrei hefur verið varpað ljósi á hver Kobbi kviðrista var og hefur fjölmörgum kenningum verið varpað fram um tíðina. Þar á meðal að Sir John Williams – læknir við bresku hirðina hafi verið sá seki sem og Lord Randolph Churchill, faðir Winston Churchill. Þá hefur Albert prins verið nefndur til sögunnar, bandaríski morðinginn H.H. Holmes (sem myndi þá skýra af hverju morðaldan hætti skyndilega) enda var sá bara í heimsókn í London, rithöfundurinn Lewis Carroll sem á að hafa skilið eftir vísbendingar í verkum sínum og margir fleiri. Einn sá líklegasti er læknaneminn Seweryn Kłosowski sem fluttist til Bandaríkjanna um svipað leyti og morðin hættu. Þá er hann talinn sérstaklega líklegur í ljósi þess að hann átti eftir að drepa nokkrar konur vestanhafs og var síðar hengdur fyrir glæpi sína.

Vildi hefna sín á vændiskonum

Kenning Beattie er hins vegar sú að lögreglumaðurinn Bowden Endacott hafi verið raðmorðinginn skelfilegi. Sá hafði það hlutverk að fylgjast með götum Whitechapel-hverfisins en árið 1887, ári áður en moræði rann á Kobba kviðristu, varð Endacott valdur að alvarlegu hneyksli sem fór sem eldur um sinu um borgina.

Þá sakaði hann saklausan kvenkyns vegfaranda um að vera vændiskona og handtók hana á staðnum. Konan, Elizabeth Cass, varð eðlilega fokvond vegna hinnar ósanngjörnu handtöku og kvartaði til Scotland Yard og í kjölfarið sprakk málið út. Endacott var þá lækkaður í tign og látinn sjá um öryggisgæslu á British Museum  og telur sagnfræðingurinn Beattie að morðhrinan sem átti sér stað ári síðar hafi verið hefnd hans á vændiskonum borgarinnar sem sviptu hann ærunni.