4 C
Grindavik
5. mars, 2021

Terpentína og önnur ámóta vímuefni

Skyldulesning

boy0.jpgFyrr má nú vera andskotans drykkjufýsnin í barninu að þamba í sig úr fullu glasi af terpentínu, og skilja svo ekkert í af hverju hún hafði ekki sambærileg áhrif á hann og áfengi. Eða var Jakob ef til vill augafullur af þessum óþverra? Hver veit. Ég man vel þegar matsveinn okkar góða skips drakk híbýlailminn, sem var á spreybrúsa og oftast kallaður skítalyktareyðir, og lá hreyfingarlaus eins og freðýsa í kojunni í sólarhring á eftir. Ekki man ég eftir að hafa heyrt þann mann tala um að terpentína væri ágætur drykkur til ölvunargleði, þó hafði hann rétt sig verulega vel af með því éta eitt sinn handþvottakrem, sem haft var á klósettinu á bifreiðaverkstæði.

Nú, eftir Jakobi Stuðmanni, eða Stuðara (ég man aldrei hvort heldur er), að dæma, þá virðist eitt glas af terpentínu á barnsaldri duga til ævilangrar vímu og henni ekki af verri endanum. Svo var það átta- eða tíu ára strákfjandi, sem hugðist þvo málningu úr hárinu á sér með terpentínu, hann varð snarbrjálaður fyrir vikið og grénjaði eins og naut í marga klukkutíma, því það sveið undan terpentínunni í hársvörðinn. Þeim drengstaula hefir varla batnað síðan þó farið sé að slaga upp hálfa öld síðan þetta gerðist.

Þá er þess að geta, að matsveinn sá er við sögu kom hér að ofan, sagði okkur frá því þegar hann hafði latan piltdrjóla fyrir aðstoðarkokk hjá sér á fraktaranum. Drengur þessi var ákaflega hægur á sér og varla viðlit að ná honum úr koju án róttækra aðgerða. Svo gjörðist það einn morguninn að pilturinn var ekki kominn á lappir eftir þriðja ræs. Þessi óráðsía gekk svo yfir okkar mann, yfirmatsveininn, að hann fór inn í klefa til pjakksins með fulla teskeið af sinnepi í hendinni og mismunaði því í rassinn á gripnum. Drengurinn spratt upp hvæsandi og ýlfrandi, en eftir þetta þurfti aldrei að ræsa hann nema einu sinni því hann vildi ekki meira sinnep í bakhluta sinn.   


Innlendar Fréttir