-2 C
Grindavik
24. janúar, 2021

Það fyrsta sem ég geri á morgnana er að segja við sjálfa mig að þetta verði góður dagur

Skyldulesning

Á hverjum morgni segir Björg Helgadóttir við sjálfa sig að dagurinn í dag verði góður dagur. Henni finnst það hjálpa sér við að halda rútínu að skrifa hjá sér hvað hún ætlar að gera næsta dag.

Á tímum COVID-19 hafa flestir glímt við þá áskorun að halda daglegu lífi í föstum skorðum þrátt fyrir takmarkanir á félagslegum samskiptum. Í Árskógum í Reykjavík býr fjöldi eldri borgara sem hafa ekki farið varhluta af þeim samfélagslegu breytingum sem hafa orðið síðan í vor. DV tók þrjá íbúa þar tali sem reyna markvisst að horfa á björtu hliðarnar og luma jafnvel á ráðum sem aðrir geta tekið sér til fyrirmyndar. Björg er einn þeirra.

„Það breyttist ansi margt með tilkomu COVID. Ég er með undirliggjandi sjúkdóma og ákvað fljótt að fara mjög varlega og fylgja öllum sóttvarnareglum til hins ítrasta,“ segir Björg Helgadóttir, fyrrverandi hjúkrunarfræðingur. Hún er 77 ára og almennt hin hressasta. Björg býr ein að Árskógum en er í afar góðu sambandi systrabörnin og við stjúpbörnin sín – börn eiginmanns síns heitins. „Ég á mjög góða að sem hugsa vel um mig. Það vantar ekki,“ segir hún.

Fyrir COVID var hún á fullu flesta daga. „Ég fór í leikfimi tvisvar í viku, tók þátt í stóladansi hér í félagsheimilinu og fór á æfingar hjá Gerðubergskórnum. Með kórnum fórum við oft á milli hjúkrunarheimila og sungum fyrir heimilisfólk, spjölluðum og fengum kaffisopa. Þetta auðvitað er allt hætt núna,“ segir hún.

Þá var Björg einnig dugleg að hitta vini og vandamenn, og mánaðarlega frá árinu 1967 hitti hún skólasystur sínar úr hjúkrunarfræðinni. Hún fór reglulega í bíó, á tónleika og út að borða. Viðbrigðin voru því töluverð.

Hringir í gamla vini

Björg er hins vegar einstaklega lausnamiðuð og hefur fundið sér ýmislegt að gera. „Ég gerði lista yfir fólk sem ég hafði ekki heyrt í lengi og skammtaði mér að hringja í tvo á dag. Þetta gerði mikla lukku og var mitt framlag þar sem ég gat ekki verið í annarri framvarðasveit,“ segir hún glaðlega. „Ég notaði símann mikið, bæði til að láta vita af mér og heyra hvernig mitt fólk hefði það.“

Í sumar fór hún á námskeið í tæknilæsi fyrir eldri borgara í félagsmiðstöðinni og lærði margt nytsamlegt. „Ég hef farið að nota tölvuna og snjallsímann meira. Eftir að hafa farið á námskeiðið gat ég pantað hjá matvöruverslunum í gegn um netið og fengið sent heim. Núna er ég líka búin að panta fullt af jólabókum og er bara nokkuð ánægð með mig,“ segir hún stolt.

Björg er jákvæð og félagslynd að eðlisfari þótt hún geti líka vel verið ein með sjálfri sér. „Ég er mikið að hlusta á hljóðbækur og fallega tónlist með heyrnartólum. Ég get alveg gleymt mér í lengri tíma og leiðist aldrei heima.“

Þakklát fyrir margt

Hún segir það hjálpa sér að halda rútínu að skrifa hjá sér hvað hún ætlar að gera næsta dag. „Jákvæðni og bjartsýni hafa allt að segja. Það fyrsta sem ég geri á morgnana er að segja við sjálfa mig að þetta verði góður dagur, ef til vill sá besti í langan tíma. Auðvitað er maður mismunandi upplagður. Ég finn að veðrið hefur áhrif á líðanina. Það má hins vegar ekki láta sjálfsvorkunn og neikvæðni ná tökum á sér.

Ég reyni að hugsa jákvætt. Ég á gott að geta gengið óstudd, er frísk og allt mitt fólk er heilsuhraust. Ég hef mína barnatrú og þakka fyrir þetta á hverju kvöldi. Ég finn líka að ég kann nú betur að meta ýmsa hluti sem maður taldi áður sjálfsagða. Það verður munur að þurfa ekki alltaf að vera með maska hér innanhúss á göngunum og þurfa ekki alltaf að spritta hendurnar,“ segir Björg.

Hún reiknar ekki með að jólahaldið verði með mjög breyttu móti. „Ég hef aldrei verið í neinu fjölmenni. Ég er sannfærð um að þetta á allt eftir að ganga vel.“

Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV sem kom út 27.  nóvember.

Innlendar Fréttir