8.4 C
Grindavik
20. júní, 2021

Það koma samt jól – „Nei, guð. Þetta stenst ekki“

Skyldulesning

Leiðari jólablaðs DV sem kom út í dag, 18 desember 2020.

Ég líkt og aðrir hef bölvað þessu ástandi í sand og ösku. Kannski meira ofan í rauðvínsglasið og konfektkassann af því að ég reyki ekki og er búin að setja hellu ofan á sandkassann í garðinum svo kettirnir í hverfinu mígi ekki í hann eða næsta appelsínugula viðvörun feyki ekki öllum hvolpasveitarfötunum út um allt hverfi.

Að því sögðu þá hefur Jólakúluástandið þó gefið mér eitt. Nei, ekki frí frá leiðinlegum ættingjum í útþynntum majónesboðum heldur heilbrigðari sýn á hvað ég „þarf“ að gera. Mér finnst ég yfirleitt þurfa að gera mikið. Ég vil skara fram úr. Heimabakað, handgert konfekt, heimagerðir kransar og skreytingar, vel þrifið, huggulega inn-pakkað, einstaklega velheppnaðar gjafir, handgerðir merkimiðar, heimagerðar sápur og kerti, seríur á öllu sem möguleiki er á að hægt sé að drífa í næstu innstungu … jesús og ekki gleyma samstæðum fötum á börnin, svo er það jólamyndatakan, snjókarl í garðinn, sleðaferð, kakó, skautaferð, jóla-trésferð, skreyta tré og piparkökur, þrífa bílinn, sópa tröppurnar, fara í kirkjugarðinn og vinna tvöfalt til að geta verið í fríi á frídögum, já og einhvern veginn sinna börnunum sem eru í jólafríi.

Og allt þetta án þess að grenja.

Alla vega ekki hátt. Það er svo óhátíðlegt. Snyrtilegast að skæla mjög stutt og ákveðið – helst í baði.

Nánast eins og að hnerra.Að því sögðu þá bókaði ég okkur í myndatöku. Af því að ég trúi því að við getum verið venjuleg fjölskylda og látið það ganga upp. Nei. Barn 1 trylltist yfir fatavalinu. Fannst ég ömurlegur stílisti. „Ætlarðu að eyðileggja líf mitt með þessum kjól?“

Við komu til ljósmyndarans hringir síminn stanslaust hjá eiginmanninum. Jólastjarna í glugganum heima, glugginn opinn og öryggiskerfið fór í gang. Það þarf að virkja nágrann-ann til að fara inn og slökkva á kerfinu sem ærir nú allt hverfið. Börnin eru aldrei á sama bletti hjá ljósmyndaranum. Önnur hefur komið auga á akrýlmálningu sem hún ætlar sér að komast í.

Það er búð í sama rými sem sú yngri er með á heilanum og fær „lánað í“. Ég skila og afsaka og lofa sjálfri mér að næsta myndataka verði vídeóverk.

Komum heim. Gefum börnunum að borða, reynum að koma þeim í bólið.

Allir lagstir. Jólasveinninn verðlaunar ekki óþekkt.

Ahhh. Þögn. Dásamlegt.

Nei, guð. Þetta stenst ekki.

Fer upp og góma þar yngri dótturina skellihlæjandi í rimlarúminu. Búin að rífa sig úr öllum fötunum og bleyjunni. Henda því á gólfið og pissa í rúmið. „Sjáðu, mamma. Fyndið.“Muna – ekki bugast. Það er svo óhátíðlegt! Tek af rúminu, skipti á barninu, afhendi það föðurnum.

Jæja, þá er myndatakan búin og allt hitt á listanum eftir. Eða hvað?

Það má kannski sleppa því að baka nema eina sort því það kemur enginn í heimsókn?

Hvað ef ég vel bara 10 atriði af 62 atriða listanum? Sleppi bara hinu?

Ég fékk mér tvo jólabjóra í eitt glas, gaf skít í langa listann og vitið þið hvað …

Það koma samt jól.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir