Vegna sóttvarnaráðstafana á Ítalíu hafa margir þurft að sætta sig við að geta ekki heimsótt ástvini sína á sjúkrahús. En það hélt ekki aftur af Stefano Bozzini, 81 árs, þegar hann vildi gera eitthvað fyrir eiginkonu sína Carla Sacchi, 74 ára, þegar hún lá á sjúkrahúsi í Castel San Giovanni. Hann gat ekki heimsótt hana á sjúkrahúsið en þess í stað kom hann sér fyrir utan við gluggann á sjúkrastofu hennar og lék uppáhaldslögin hennar á harmonikuna sína.
Sonur þeirra hjóna, Mauritzio Bozzini, tók myndband af þessu og er óhætt að segja að það hafi slegið í gegn á samfélagsmiðlum enda þykir það gott dæmi um sanna og langvarandi ást. Eftir því sem kemur fram í umfjöllun The New York Times þá höfðu hjónin verið gift í 47 ár.
Stefano lék uppáhaldslög Carla fyrir utan gluggann hennar. Þar á meðal lög í flutningi Engelbert Humperdinck og Elvis Presley.
„Við þekkum öll ástina í sínum einfaldleika og í gegnum alþjóðlegt tungumál hennar. Þetta minnir okkur á hvað það þýðir að elska einhvern. Að gera allt til að viðkomandi finnist hann ekki einmana og yfirstíga allar hindranir til þess,“ skrifaði Patrizia Barbieri, bæjarstjóri, á Facebook um myndbandið og það sem Stefano gerði fyrir eiginkonu sína.
Carla lést 19. nóvember og var jarðsett þremur dögum síðar. Andlát hennar tengist ekki COVID-19.