8 C
Grindavik
27. febrúar, 2021

Það var áfall fyrir Víði að smitast – „Maður þarf að sættast við sjálfan sig og muna að það er veiran sem er óvinurinn“

Skyldulesning

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, segir að það hafi bæði verið líkamlegt og andlegt áfall fyrir sig að smitast af kórónuveirunni. Þetta kemur fram í viðtali Víðis við RÚV í kvöldfréttum.

Víðir greindi frá því að hann og fjölskylda hans hefðu alltaf farið afskaplega varlega og fjölskyldan reynt að passa upp á hann. Því hefði það verið mikið áfall fyrir hann að smitast. Gestagangur á heimili Víðis dagana áður en hann greindist vakti gagnrýni en alls komu þangað 8 manns yfir eina helgi. Víðir segir að alltaf sé hægt að líta til baka og sjá eitthvað sem hægt hefði verið að gera öðruvísi en aðstæður hefðu verið með ákveðnum hætti þessa helgi. „Ég stend þétt á bak við mínum vinum og hjálpa þeim þegar þess þarf. Það er það sem upp úr stendur. Auðvitað var þetta alveg glatað að einhver smitaðist en þessi veira er lævís og lúmsk og maður þarf að reyna að sætta við sjálfan sig og muna að það er veiran sem er óvinurinn.“

Víðir greindist með veiruna í lok síðasta mánaðar og varð mjög veikur. Fékk hann meðal annars lungnabólgu og var undir eftirliti lækna á Landspítalanum. Hann glímir enn við mikil eftirköst, segist vera alveg þreklaus, lyktarskynið sé ekki komið og hann fái mikil hóstaköst. Ef hann gengur upp stiga þarf hann að stöðva og hvíla sig. Segist hann reyna að hafa hemil á sér við vinnu því hugurinn sé kominn lengra en líkaminn. Samstarfsfólk Víðis passar upp á að hann fari ekki fram úr sér.

Innlendar Fréttir