Þakið rifnaði af í 24 þúsund feta hæð- Flugmennirnir sýndu ótrúlega hæfni þegar þeir lentu vélinni – DV

0
128

Þann 28. apríl næstkomandi verða 35 ár liðin frá óhugnanleg flugslysi Aloha Airlines þegar þakið á Boeing 737-flugvél félagsins rifnaði af vélinni að hluta í 24 þúsund feta hæð.

Tæplega hundrað manns voru um borð í vélinni sem var á leið frá Hilo-alþjóðaflugvellinum á Hawaii til Honolulu. Um var að ræða hefðbundna flugferð og átti flugið að taka einungis rétt tæpa klukkustund – en ferðin endaði á að breyta flugsögunni og ýmsum öryggisatriðum í flugi.

Skyndilega heyrðist hvellur The Sun rifjaði upp þessa örlagaríku flugferð en um borð voru 90 farþegar og fimm manna áhöfn. Eftir að vélin hafði verið í loftinu í um 20 mínútur og áhöfnin var í þann mund að byrja að bera fram veitingar fyrir farþega heyrðist hávær hvellur. Vélin var þarna komin í 24 þúsund feta hæð og féll loftþrýstingurinn í farþegarýminu mjög skyndilega.

Augnabliki eftir að hvellurinn heyrðist rifnaði nokkuð stór hluti af þakinu vélarinnar og strax í kjölfarið rifnaði sambærilega stór hluti af skrokki vélarinnar af. Sat hluti farþega skyndilega undir berum himni á mörg hundruð kílómetra hraða um háloftin.

Sogaðist út og fannst aldrei Þótt ótrúlegt megi virðast varð aðeins eitt banaslys í þessu óhugnanlega slysi. Clarabelle Lansing, 58 ára flugfreyja um borð í vélinni, var að bera fram veitingar þegar þakið rifnaði af og hún sogaðist út. Lík hennar fannst aldrei en hún hafði starfað sem flugfreyja í 37 ár þegar slysið varð.

Eðli málsins samkvæmt greip mikil skelfing um sig meðal farþega sem héldu að þeirra síðasta stund væri runnin upp. Flugstjórinn Robert Schornstheime, 44 ára, barðist við að halda stjórn á vélinni en honum til aðstoðar var flugmaðurinn Madeline Tompkins.

Robert rifjaði upp í viðtali eftir atvikið að það hafi verið furðuleg sjón að líta aftur fyrir sig og sjá aðeins bláan himinn þar sem farþegar á fyrsta farrými sátu. Michelle Honda, flugfreyja sem var aftar í vélinni en Clarabelle þegar slysið varð, skall í gólfið eftir að brak úr þakinu fauk yfir hana og kollegi hennar, Jane Sato-Tomita, rotaðist þegar hún varð fyrir braki.

„Ég man eftir því að hafa skriðið eftir gólfinu og kallað á farþega að fara í björgunarvestin,“ rifjaði Honda upp eftir slysið. Farþegar héldu dauðahaldi í hvorn annan enda var vélin á fleygiferð þegar slysið varð. „Vindurinn var óhugnanlegur. Þetta var eins og hið versta óveður,“ sagði Honda.

Flugmennirnir unnu þrekvirki Flugmennirnir, Robert og Madeline, unnu þrekvirki þegar þeim tókst að halda stjórn á vélinni og lenda henni heilu og höldnu á Kahului-flugvellinum um þrettán mínútum eftir að þakið rifnaði af. Líklega hafa þetta verið lengstu þrettán mínútur í lífi þeirra sem voru um borð.

Alls slösuðust 65 farþegar í slysinu, þar af átta alvarlega, en sú eina sem lést var hin 58 ára Clarabelle Lansing. Þeir sem slösuðust verst hlutu meðal annars beinbrot og brunasár af völdum rafmagnskapla sem slitnuðu þegar vélin brotnaði.

Rannsókn á tildrögum slyssins hófst fljótlega eftir að vélin lenti og kom í ljós að málmþreytu í þaki og skrokki vélarinnar var um að kenna. Vélin var komin til ára sinna og komust bandarísk flugmálayfirvöld, FAA, að því að reglulegu viðhaldi hafi ekki verið sinnt nægjanlega vel. Varð þetta til þess að FAA setti strangari reglur um eftirlit og viðhald farþegavéla sem gjarnan eru í stífri notkun.

Í umfjöllun The Sun er þess getið að lítill minningargarður hafi verið opnaður á flugvellinum í Honolulu árið 1995 til minningar um Clarabelle sem lést í slysinu.

Fjallað var um málið í Morgunblaðinu á sínum tíma.