7 C
Grindavik
23. apríl, 2021

„Þarf alla vega ekki að slá garðinn á næstunni“

Skyldulesning

„Þetta sýnir bara enn og aftur hvað Seyðisfjörður er góður …

„Þetta sýnir bara enn og aftur hvað Seyðisfjörður er góður staður og gott að vera hér,“ segir Davíð Kristinsson.

mbl.is/Eggert

„Það er auðvelt að vera á Seyðisfirði í svona aðstæðum,“ segir Davíð Kristinsson íbúi á Seyðisfirði sem þurfti að rýma húsið sitt ásamt fjölskyldu sinni í gær vegna aurskriðna. Nokkrar skriður féllu á húsið hans en Davíð segir að samhugur sé í Seyðfirðingum, líkt og ávallt. 

„Flóðið féll á húsið hjá okkur svo það er vel á floti, kjallari og bílskúr og eitthvað,“ segir Davíð. Hann sá þegar skriðurnar féllu á húsið.

Þetta er væntanlega mikið tjón?

„Ég veit það ekki. Ég þarf alla vega ekki að slá garðinn á næstunni þannig að það er alla vega einhver plús í þessu,“ segir Davíð, jákvæður miðað við aðstæður. 

Allir boðið fram gistingu

Hann er varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði og hefur því haft í nógu að snúast síðan hættustigi var lýst yfir síðdegis í gær. Mikið hefur verið að gera hjá björgunarsveitinni. 

„Ég er búinn að negla fyrir glugga sem snýr upp í hlíðina. Svo má náttúrulega ekki vera inni á svæðinu og ég er bara í björgunarsveitarstörfum þannig að ég hef ekkert komist í að skoða húsið okkar sjálfur,“ segir Davíð.

Spurður um líðan Seyðfirðinga segir hann: 

„Þetta sýnir bara enn og aftur hvað Seyðisfjörður er góður staður og gott að vera hér. Það hafa allir boðið gistingu, hér og þar og alls staðar á ólíklegustu og líklegustu stöðum og það er samhugur eins og alltaf hjá Seyðfirðingum og áhugi á að hjálpa til. Enginn veigrar sér við neitt. Það er auðvelt að vera á Seyðisfirði í svona aðstæðum. Síminn er næstum því orðinn batteríslaus út af kveðjum. Seyðfirðingar eru duglegir að hjálpa til og bjóða fram aðstoð.“

Svona var umhorfs á Seyðisfirði í gærkvöldi.

Svona var umhorfs á Seyðisfirði í gærkvöldi.

Ljósmynd/Ómar Bogason

Eins auðvelt og hægt er

Hann segir að það hafi verið lítið mál að rýma þau hús sem þurfti vegna hættustigs en á annað hundrað íbúa þurfti að yfirgefa heimili sín.

„Fólk bara skildi það og hlýddi þannig að þetta er bara búið að vera eins auðvelt og hægt er, ef mögulegt er að orða það þannig.“

Hefurðu lent í einhverju svona áður?

„Nei, engu í líkingu við þetta. Það fór skriða á annað hús sem við eigum og er hluti af Hótel Öldunni fyrir fjórum árum en það var líka autt. Svo ég hef fengið aurskriður á hús sem ég á áður, hver hefur ekki prófað það?“

Eins og áður segir er Davíð hótelstjóri og einn af eigendum Hótels Öldunnar. Þar var „fullt af fólki“ í gistingu í gærkvöldi. Nú tekur björgunarsveitin Ísólfur á móti íbúa sem rýmt hafa hús sín og þurfa nauðsynj­ar. Enn er hættustig í gildi vegna skriðuhættu á Seyðisfirði.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir