Þegar Stefan Bandera dó

0
111

Það var laust upp úr hádegi á sólríkum og hlýjum haustdegi í München árið 1959 að kona nokkur lá úti á suðursvölum íbúðar á fjórðu hæð hússins númer 7 við Kreittmayrstraße. Þetta var í hverfinu Neuhausen þar sem aðallega bjuggu þokkalega stæðir iðnaðar- og verkamenn en einnig skrifstofufólk og slæðingur af menntamönnum.

Nú heyrði konan að bíl var ekið inn í portið sem svalirnar sneru út að. Hún þóttist þekkja vélarhljóðið og síðan skell í bílhurð og þegar hún leit út af svölunum sá hún að bíll eiginmanns hennar var kominn inn í portið. Hún sá ofan á höfuðið á manninum sínum hverfa inn í húsið. Líklega var hann kominn heim í mat, þótt það hafi ekki staðið til þennan daginn, og konan gekk því inn í íbúðina og fram í eldhús og hugðist hafa eitthvað til.

Niðri á annarri hæð hússins við Kreittmayrstraße voru hjónin Melach og Chaja Gamse nýbúin að snæða hádegisverð. Þá heyrðu þau skyndilega mikla skruðninga og einhvers konar hljóð úr mannsbarka utan af stigaganginum. Þegar Melach opnaði dyrnar blasti hræðileg sjón við. Nágranni Gamse-hjónanna ofan af fjórðu hæð, maður um fimmtugt sem þau þekktu sem Stefan Popel, hafði greinilega verið á leið upp til sín en hnotið í stiganum og lá nú með höfuðið upp við vegg á stigapallinum milli íbúðar Gamse-hjónanna og Winklmann-hjónanna sem bjuggu á móti.

Hví var hann með byssu? Magdalena Winklmann var líka mætt á vettvang og þau Melach Gamse tóku að stumra yfir föllnum nágranna sínum. Það blæddi lítillega úr nefi hans og munni og hann reyndi ákaft að ná andanum. Gamse fór inn til að hringja í sjúkrabíl en Magdalena Winklmann hrópaði ákaflega upp á fjórðu hæð og kona Popels, Iaroslava, kom brátt þjótandi alveg í öngum sínum. Maður hennar reyndi að segja eitthvað en kom ekki upp orði fyrir andþrengslum.

Eina hljóðið sem þau skildu var: „Úí, úí …“ — langt og sársaukafullt.

Meðan Gamse-hjónin og Magdalena Winklmann voru að stumra yfir Popel, sem sífellt dró af, fundu þau af honum daufa möndlulykt og svo urðu þau steinhissa að sjá að hann var með skammbyssu í byssuslíðri undir jakka sínum. Þau höfðu ekki vitað annað en hinn vinalegi nágranni þeirra væri friðsemdarmaður.

Nú kom sjúkrabíll til að flytja Stefan Popel á spítala en á leiðinni þangað lést hann. 

Frelsishetja Úkraínumanna?

Stefan Bandera skömmu fyrir dauða sinn í MünchenEnginn vafi er á því að Bandera studdi Hitler í upphafi seinni heimsstyrjaldar og menn hans stunduðu grimmilegar ofsóknir gegn Gyðingum, Pólverjum og fleirum. En Bandera sat sjálfur í fangabúðum Þjóðverja stóran hluta stríðsins og tveir bræður hans dóu í Auschwitz.

Gamse- og Winklmann-hjónunum kom á óvart hve skyndilegur dauði nágranna þeirra vakti mikla athygli. Brátt var allt morandi í lögreglumönnum í húsinu við Kreittmaystraße og yfirheyrðu alla íbúa hússins í þaula. Dularfullir ábúðarfullir menn í svörtum frökkum voru líka á sveimi, og daginn eftir birtust blaðamenn með ótal spurningar um líf og dauða Stefans Popels þarna í húsinu.

Það voru fréttir í blöðunum sem að lokum upplýstu nágranna Popel-hjónanna um það hver Stefan var í raun og veru. Þó voru blöðin einkennilega ósammála um leið. Hann hét greinilega Bandera, sá látni, ekki Popel, og sum blöðin kölluðu hann „frelsishetju Úkraínumanna“ en önnur ótíndan nasista og jafnvel ábyrgan fyrir fjöldamorðum í seinni heimsstyrjöldinni, ekki síst á Gyðingum.

Dánarorsök verður ljós Gamse- og Winklmann-hjónunum hnykkti illa við slíkar fréttir. Þau voru Gyðingar og höfðu aldrei fundið fyrir neinum fjandskap af hálfu nágranna síns, hvorki út af því né nokkru öðru. Þau reyndu að spyrja Iaroslövu, konu Popels, nei Bandera, en hún var ekki mönnum sinnandi eftir svo snögglegt fráfall eiginmannsins og ansaði fáu.

Ekki minnkaði leyndardómurinn um Bandera þegar hann hafði verið krufinn og í ljós kom að stór skammtur af blásýru hafði orðið honum að bana.

Hafði hann verið myrtur? Nóg reyndist hann eiga af óvinum. Í blöðunum birtust nú fréttir af samtökum útlægra Úkraínumanna sem Stefan Bandera hafði bersýnilega stýrt frá München og undirmenn hans skófu ekki utan af því í viðtölum við blöðin. Sovétstjórnin hafði margoft gert tilraun til að ráða hinn ötula andstæðing sinn Stefan Bandera af dögum, sögðu þeir.

Hafði það nú loksins tekist?

Kreittmayrstraße 71) Planið í portinu þar sem Bandera lagði bíl sínum og hugðist síðan fara upp í íbúð sína með vínber, plómur og tómata. 2) Hér lá Iaroslava í sólbaði. 3) Hér bjuggu Gamse-hjónin.

Var eitur í eplinu? Sú skýring virtist vissulega liggja beint við en þó var erfiðleikum bundið að koma henni heim og saman. Því hvernig hafði tilræðismönnum tekist að koma blásýrunni í líkama Bandera?

Rannsókn lögreglunnar í München leiddi í ljós að fyrir hádegi þennan fimmtudag 15. október hafði Bandera verið á skrifstofum þeirra úkraínsku samtaka sem hann stýrði og þar hafði ekkert sérstakt borið til tíðinda. Á leiðinni heim í hádeginu hafði hann komið við í söluvagni við Zeppelin-straße og keypt vínber, plómur og tómata, auk þess sem hann gæddi sér þar á safaríku epli, en lögreglan afskrifaði þá hugmynd að eitur hefði verið í eplinu. Blásýra er svo skjótvirkt eitur að hann hefði engan veginn komist þaðan alla leið heim til Kreittmayrstraße áður en hún færi að verka. Raunar virtist augljóst að eitrið hefði ekki komið inn fyrir varir hans fyrr en örfáum andartökum áður en Game- og Winklmann-fjölskyldurnar heyrðu skruðninga og hálfkæft óp utan af stigaganginum á annarri hæð.

Engin merki um mannaferðir Engin merki voru um aðrar mannaferðir í húsinu, né nokkuð sem benti til að Bandera hefði verið þvingaður til að taka eitrið í einhverju formi.

Því varð niðurstaða réttarrannsóknar lögreglunnar sú að Stefan Popel, 50 ára Úkraínumaður, réttu nafni Stefan Bandera, hlyti að hafa framið sjálfsmorð með því að gleypa blásýrupillu á stigaganginum.

Iaroslava Bandera Það er til marks um hve skiptar skoðanir eru um hvaðeina sem lýtur að Bandera að heimildir greinir mjög á um heimilislíf Bandera-hjónanna og þriggja barna þeirra. Ýmist er hann sagður hafa verið ástríkur faðir og eiginmaður eða ofbeldishrotti og kúgari. Eftir lát hans hélt Iaroslava áfram að starfa fyrir samtök útlægra Úkraínumanna en fluttist til Kanada þar sem hún lést 1977.

Bæði fjölskylda Bandera og hjálparmenn hans í samtökum Úkraínumanna töldu þessa skýringu fráleita. Bandera hefði aldrei látið sér til hugar koma að svipta sig lífi. Ekki kæmi annað til mála en útsendarar Sovétríkjanna hefðu myrt hann, hvernig svo sem þeir hefðu farið að því á þeim stutta tíma sem leið frá því Iaroslava kona hans missti sjónar á honum hverfa inn í húsið og þar til hann var kominn upp á stigaganginn á annarri hæð.

Nasisti í ríkisstjórn Vestur-Þýskalands Sovétmenn höfnuðu allri aðild að málinu. Þeir létu hafa eftir sér að líklega hefði Theodor Oberländer, flóttamannaráðherra í ríkisstjórn Vestur-Þýskalands, látið drepa Bandera. Oberländer var ákafur nasisti og fyrrverandi embættismaður Þriðja ríkis Hitlers sem Konrad Adenauer kanslari hélt lengi hlífiskildi yfir af því það hentaði honum pólitískt. Haustið 1959 lá Oberländer undir ásökunum um að hafa tekið þátt í ægilegum fjöldamorðum á Gyðingum í borginni Lvov sumarið 1941 og nú héldu Sovétmenn því fram að hann hefði látið fyrirkoma Bandera til að hann kæmi ekki upp um sinn þátt í málinu. Samtök Bandera vissu allt um þau fjöldamorð því margir úkraínskir þjóðernisofstopamenn sem tóku þátt í Gyðingamorðunum voru félagsmenn hans.

Barist af heift og alvöru En þótt engum blandaðist hugur um að Oberländer hefði verið ákafur nasisti og Gyðingahatari varð aðild hans að fjöldamorðunum ekki sönnuð og þaðan af síður að hann hefði á nokkurn hátt komið nálægt andláti Stefans Bandera.

Núnú — þarna virðist vera komin ein neðanmálsgreinanna úr sögu kalda stríðsins en þær eru vissulega fleiri en margir ætla. Í hálfan annan áratug eftir lok seinni heimsstyrjaldar héldu andstæðingar Sovétstjórnarinnar til dæmis úti skæruhernaði bæði í Eystrasaltsríkjum og Úkraínu og þar létu margir lífið þótt allt sé það meira og minna gleymt nú hér í vestrinu. Samtök Bandera komu þar einmitt við sögu og börðust af djúpri alvöru og heift.

En síðustu árin hefur áhugi á Bandera aukist vegna þess að hann hefur upp á síðkastið fengið nýtt hlutverk í mannkynssögunni. Eftir að Úkraína varð sjálfstæð 1991 varð hann lengi vel tákn um frelsis- og sjálfstæðisþrá Úkraínumanna andspænis kúgunarstjórn rússneskra kommúnista.

Stuðningsmaður Hitlers Einmitt það hlutverk Bandera olli því svo að hann hefur síðustu árin leikið mjög á tungu þeirra sem vilja veg Úkraínumanna hinn versta. Þar á meðal hefur Vladimír Pútín oft nefnt Stefan Bandera og aðdáendur hans til sögunnar þegar hann vill sanna að Úkraínumenn séu upp til hópa nasistar og verstu þrjótar og nauðsynlegt að skipta um stjórn í landinu.

Og það er laukrétt hjá Pútín og Pútínistum að Stefan Bandera var stuðningsmaður ríkisstjórnar Hitlers í Þýskalandi, Gyðingahatari og átti sinn þátt — bæði beint og ekki síður óbeint — í skelfilegum fjöldamorðum í síðari heimsstyrjöld, aðallega á Gyðingum og Pólverjum. Og það er líka rétt að sum stjórnvöld og jafnvel hluti almennings í Úkraínu litu lengi vel framhjá glæpum Bandera er þau einblíndu á atorku hans og eldmóð í baráttu fyrir lausn Úkraínumanna undan kúgun Kremlarvaldsins.

Beitt fyrir stríðsvagn Pútíns En hvað gerði og sagði Bandera í raun og veru? Og hvert er orðspor hans í Úkraínu nú á dögum eftir að Pútín hefur beitt honum nauðugum og steindauðum fyrir stríðsvagn sinn? Og úr því Bandera var stuðningsmaður Hitlers, af hverju eyddi hann lunganu úr seinni heimsstyrjöld í þýskum fangabúðum?

Frá þessu öllu saman segir í flækjusögunni í næstu viku, og þá verður líka svarað þeirri grundvallarspurningu:

Hvað gerðist eiginlega í stigaganginum á Kreittmayrstraße 7 í hádeginu þennan umrædda fimmtudag haustið 1959?