Þess vegna þarftu alltaf að hafa fulla einbeitingu við aksturinn – DV

0
51

Óhugnanlegt myndband sem tekið var á eftirlitsmyndavél í bifreið í Melbourne í Ástralíu er sönnun þess að ökumenn þurfa alltaf að hafa fulla einbeitingu við aksturinn.

Myndbandið sýnir þegar bifreið var ekið á unga stúlku sem hljóp út á götu í þann mund sem bifreið kom aðvífandi. Stúlkan slasaðist ekki alvarlega og má hún að líkindum teljast heppin.

Myndbandið var birt á fréttavef ástralska fjölmiðilsins News.com.au eftir að hafa birst fyrst í Facebook-hópnum Dash Cam Owners Australia.

Eins og myndbandið sýnir hafði ökumaðurinn lítinn tíma til að bregðast við en hann steig á bremsuna um leið og hann varð var við stúlkuna. Það dugði þó ekki til og fékk stúlkan þungt högg á sig.

Myndbandið hefur vakið mikla athygli og hafa sumir gagnrýnt hegðun föður stúlkunnar sem barði í húdd bifreiðarinnar. Aðrir benda á að ökumaðurinn hafi augljóslega ekið of hratt miðað við aðstæður. Hraðinn hafi gert það að verkum að hann náði ekki að bregðast við og bremsa í tæka tíð.

Þá eru aðrir sem sjá báðar hliðar.

„Getum við hætt að einblína á pabbann sem barði í húddið og einblínt frekar á ökumanninn sem ók of hratt niður þessa þröngu götu. Skjót viðbrögð hans komu í veg fyrir að stúlkan slasaðist alvarlega af hans völdum.“

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan en vakin er athygli á því að það kann að vekja óhug.