3 C
Grindavik
28. febrúar, 2021

Þessi dagur

Skyldulesning

Já.. þessi dagur sem mun aldrei gleymist meðan ég lifi. Þessi dagur þegar urðu mikil vatnaskil hjá okkur íbúum hér á Heimaey árið 1973.

Átján ára gömul með 6 mánaða gamla dóttur mína, Helenu Sigríði þegar við urðum að flýja eyjuna okkar að nóttu til þegar risaeldgos klauf næstum Heimaey í austri og hrikalegar drunur fylgdu  í kjölfarið þegar eymyrjan skaust himinhátt upp úr jörðinni.


Eyjan okkar var eldrauð í myrkrinu og lýsti upp vantrúuð andlitin. Það sem skaust í gegnum huga mér á þessu andartaki voru húsin,heimilin þarna austurfrá Kirkjubæirnir og húsin á þeim slóðum því eldarnir virtust koma upp þar þegar jörðin rifnaði upp eins og rennilás. Þessa sýn sá ég frá þáverandi heimili mínu að Hásteinsvegi 5 þar sem við bjuggum á efri hæðinni. Ég vaknaði við raddir fólks í nágrenninu og sá rauðan ljóma og taldi þá að það væri kviknað í einhversstaðar nálægt heimili okkar. Ég kíkti út um svefnherbergisgluggann en gat með engu móti séð hvar eldurinn var og fór upp stigann uppí risið en þar var stór gluggi sem snéri í austur og þá..blasti við mér óhugnaðurinn í austri þegar jörðin rifnaði bókstaflega upp og hver spýjan af annarri gaus upp. Þetta var hræðileg sýn og rétt svo að maður trúði því sem var að gerast fyrir augunum á sér. Uppi í risi var sonur hjónanna á neðri hæðinni með herbergi og ég bankaði á dyrnar hjá honum til að vekja hann. Og þegar hann sá það sem var að gerast þaut hann niður til að vekja foreldra sína. Skrýtið að hugsa um það eftir á að maður tók ekkert með sér. Eina hugsunin var að komast með barnið í öruggt skjól og vitja heimilis foreldra minna og systra á Hvoli við Urðarveg 17 og þangað var haldið með barnið í vagninum. Á leiðinni mættum við fólki sem var svo vantrúa og vissi varla hvað það átti að gera. Og einum mætum manni mættum við sem spurði hvað væri eiginlega að gerast og ég sagði við hann að það væri farið að gjósa á eyjunni en hann ætlaði ekki að trúa því. 

Að Hvoli voru allir að taka sig saman og gera sig klár að fara niður á bryggju en þangað var okkur sagt að fara og um borð í bátana sem betur fer voru allir inni eftir slæmt veður deginum áður en þessa örlagaríku nótt á Heimaey var blankalogn og enn segi ég.. sem betur fer því ef veðrið hefði verið eins og deginum áður, brjálað austan rok eða stormur hefði ýmislegt getað skeð sem ég vil helst ekki hugsa um. 

Við fórum um borð í Gjafar Ve og haldið var til Þorlákshafnar. Allir bátar yfirfullir af fjölskyldum með börn sín á öllum aldri. Það var þungur sjór eftir rótið deginum áður og það urðu flest allir sjóveikir á leiðinni og m.a ég. En ég var svo ótrúlega heppin að Anna systir mín heitin  sem var alger sjóhundur var um borð og gat hugsað um Helenu mína meðan ég barðist við sjóveikina hálfmeðvitundarlaus á gólfi inni í einni káetunni. Þökk sé þér elsku systir mín sem ert nú komin í Sólarlandið.

Gríðarlegur fjöldi manna og kvenna beið eftir okkur flóttamönnunum á bryggjunni í Þorlákshöfn og hver höndin af annarri rétti fólkinu um borð í bátunum hjálparhönd og áleiðis í rútur sem voru þar staðsettar. Anna mín hélt enn á Helenu minni og við komum okkur fyrir í einu sætanna. Það var ekki fyrr en rútan var lögð af stað til Reykjavíkur þegar ég heyrði þulinn í ríkisútvarpinu segja Eldgos er hafið á Heimaey og allir íbúar eru á leiðinni til Þorlákshafnar þar sem tekið verður á móti flóttafólkinu og ekið með það í hina ýmsu skóla á Reykjavíkursvæðinu..það var þá á þessu augnabliki sem ég gerði mér grein fyrir að þetta var raunveruleikinn og tárin byrjuðu að trítla niður kinnarnar.

Í dag er ég svo þakklát öllum þeim sem komu okkur til hjálpar á hvaða máta sem var og þessar hetjur sem aldrei hefur verið fullþakkað fyrir allt sem gert var fyrir okkur þá og seinna meir vil ég endurtaka það þakklæti af öllu mínu hjarta. Og ekki síst þeim sem gerðu okkur kleift að snúa aftur eftir hreinsun Heimaeyjar.

Af öllu mínu hjarta, þakka ég ykkur öllum

Kær kveðja úr Kollukoti

Kolbrún Vatnsdal Sigríðardóttir


Innlendar Fréttir