8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Þessir þykja líklegir til að taka við Arsenal verði Arteta rekinn – Versta byrjun liðsins í 38 ár

Skyldulesning

Rétt rúmlega ár er liðið síðan Mikel Arteta tók við stjórnartaumunum hjá enska félaginu Arsenal eftir að Unai Emery, þáverandi knattspyrnustjóri liðsins var látinn fara. Freddie Ljungberg, stýrði liðinu um stund sem bráðabirgðastjóri eftir að Emery var látinn fara.

Miklar vonir voru bundnar við komu Arteta til félagsins. Hann hafði þó ekki reynslu af því að vera knattspyrnustjóri hjá félagi en hafði starfað um árabil sem aðstoðarþjálfari hjá Manchester City undir stjórn Pep Guardiola, eins sigursælasta knattspyrnustjóra samtímans.

Arteta fór vel af stað á síðasta tímabili og undir stjórn hans varð Arsenal enskur bikarmeistari en náði ekki að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu.

Gengi liðsins á núverandi tímabili hefur verið arfaslakt. Liðinu gengur illa að skora og hefur tapað sex af sínum ellefu leikjum í ensku úrvalsdeildinni og situr í 15. sæti deildarinnar. Þetta er versta byrjun Lundúnarliðsins í 38 ár.

Það eru skiptar skoðanir um framtíð Arteta hjá Arsenal. Það heyrast raddir þeirra sem vilja breytingar hjá félaginu og að nýr knattspyrnustjóri verði ráðinn. Síðan heyrast raddir þeirra sem telja að vandamálin liggi ekki hjá Arteta, heldur hjá yfirstjórn félagsins og að Arteta þurfi lengri tíma.

Talksport hefur tekið saman lista af þjálfurum sem þykja líklegir til þess að taka við af Arteta verði hann látinn fara frá Arsenal. Sá sem er talinn líklegastur til þess að taka við af Arteta þykir vera Ítalinn Massimiliano Allegri, fyrrverandi knattspyrnustjóri Juventus. Allegri vann til margra titla hjá félaginu og hefur verið án starfs um nokkurt skeið núna.

Önnur nöfn á listanum eru Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri PSG, Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester City og gömlu Arsenal goðsagnirnar Patrick Vieira og Thierry Henry.

Enski boltinn á 433 er í boði

Innlendar Fréttir