-2 C
Grindavik
23. janúar, 2021

„Þetta er alls ekki tíminn til að slaka á“

Skyldulesning

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir það ánægjulegt að allir þeir tólf sem greindust með veiruna innanlands í gær hafi verið í sóttkví.

Það sé þó alls ekki svo að það megi slaka á og hætta að fara eftir leiðbeiningum um sóttvarnir. Þá minnir Þórólfur einnig á að það hafi verið tekin heldur færri sýni í gær en undanfarið.

„Þetta þýðir bara það að við þurfum að halda áfram að vera dugleg og vanda okkur og gera það sem við þurfum að gera. Þetta er alls ekki tíminn til að slaka á og hætta að fara eftir leiðbeiningum, síður en svo,“ segir Þórólfur í samtali við fréttastofu.

Þannig að fólk á ekki að taka þessu sem svo að það sé óhætt að mæta í boð um helgina?

„Nei, alls ekki, síður en svo. Þá bara glutrum við þessu niður aftur.“

Þórólfur hyggst eftir helgi skila nýju minnisblaði til heilbrigðisráðherra með tillögum að næstu sóttvarnaaðgerðum.

Aðspurður hvort hann sé farinn að sjá fyrir sér að það verði hægt að fara í tilslakanir segist hann ekki kominn svo langt. Hlutirnir geti breyst mjög hratt eins og reynslan sýni.

„Auðvitað er ég alltaf að pæla eitthvað en ég er ekkert svona alvarlega sem ég get deilt með þjóðinni. Við verðum að sjá hvernig helgin verður og hvernig þetta verður því við sáum hvað gerðist síðast. Við héldum að við værum komin á góðan stað þegar allt í einu hlutirnir snerust við og ég þurfti að draga í land með allt sem ég var búinn að ákveða,“ segir Þórólfur.

Innlendar Fréttir