1 C
Grindavik
15. janúar, 2021

Þetta er maðurinn sem sagður var hafa hótað Katrínu – Þingmenn segja ekkert athugavert við símtöl hans

Skyldulesning

Jonathan Moto Bisagni heitir maðurinns sem grunaður var fyrr í dag um að hafa hótað Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Svo virðist sem málið sé byggt á misskilningi og ekkert bendir til að Jonathan hafi haft í frammi hótanir. Þingmenn sem Jonathan hringdi í láta vel af samtölum við hann. Óljóst er hvað olli því að Jonathan sat í haldi lögreglu í dag, grunaður um hótanir.

Jonathan hefur fjölþjóðlegan bakgrunn, er af ítölskum og japönskum ættum, en bjó í New York áður en hann flutti til Seyðisfjarðar og kallar sig Bandaríkjamann. Jonathan hefur undanfarin ár rekið matvælafyrirtækið Austurlands Food Coop, ásamt eiginkonu sinni, við miklar vinsældir.

Jonathan sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag að hann hafi verið handtekinn vegna þessa að hann hafi hringt í nokkra þingmenn og reynt að útskýra fyrir þeim stöðuna á Seyðisfirði. Jonathan endurtók þetta í samtali við DV: „Ég veit ekki hver sagan er. Einhver segir að ég hafi hótað einhverjum lífláti.“

Jonathan heldur til með fjölskyldu sína á Egilsstöðum þar sem húsið þeirra á Seyðisfirði hefur verið rýmt. Hann segist hafa hringt í nokkra stjórnmálamenn um morguninn til að ræða ástandið á Seyðisfirði. „Í fréttum hefur verið sagt að ofsarigning sem bara komi á þúsund ára fresti hafi orðið hafi valdið skriðuföllunum. Að það hefði ekki verið hægt að komast hjá þessu. En sannleikurinn er sá að fyrir stuttu var hér borgarafundur með vísindamönnum sem sögðu að húsin okkar væru á hættusvæðum. Þeir sögðu okkur að þegar hættustig yrði hærra í mikilli rigningu yrðu húsin okkar rýmd áður en hörmungar hlytust af. En þetta er var ekki gert. Húsin voru ekki rýmd fyrr en eftir að skriður féllu og ógnuðu okkur beint.“

Jonathan mundi nöfn tveggja þingmanna sem hann hafði náð í um morguninn. Önnur er Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. „Ég talaði við hann í klukkutíma eða meira í morgun. Það voru engar hótanir. Honum var bara mikið niðri fyrir sem eðlilegt er. Hann er bara í miklu áfalli og hefur ríka réttlætiskennd sem er bara gott mál,“ sagði Líneik í samtali við DV og hafði gott eitt að segja um samskipti sín við Jonathan.

Hinn þingmaðurinn er Bjarkey Olsen Gunnardóttir. Hún hafði sömu sögu að segja og Líneik. Jonathan hefði legið mikið á hjarta en ekkert hefði verið athugavert við framkomu hans. „Hann var dálítið æstur eins og maður skilur. Fólk er í miklu áfalli eðli máls samkvæmt. Við áttum heillangt samtal. Honum var mikið niðri fyrir en það voru engar hótanir og ekkert sem mátti skilja svoleiðis. Hann vildi bara að hlutirnir yrðu gerðir strax og hefðu átt að vera gerðir fyrir löngu,“ segir Bjarkey.

Innlendar Fréttir