Þetta gerist ef þú skiptir ekki nógu oft um sængurver – DV

0
241

Flestir hafa eflaust lent í því þegar þeir eru rétt búnir að koma sér fyrir uppi í  rúmi þá læðist sú hugsun að þeim að það sé nú kominn tími til að skipta á rúminu. En þreytan, og auðvitað letin, koma í veg fyrir að maður nenni að fara fram úr til að skipta á rúminu. En við ættum að vera duglegri að skipta á rúmunum okkar því það hefur frekar ógeðfelldar og heilsuspillandi afleiðingar að gera það ekki að sögn ATTN.

Fyrst og fremst er það sviti, líkamsvessar, skítur, slef, þvag, vökvar sem losnar um við kynlífsiðkun og saur sem lenda í lakinu og sængurverinu. Ef þetta fær að vera í rúmfatnaðinum, þá áttu á hættu að þetta berist í sár eða skrámu og valdi sýkingu. Svo má ekki gleyma að þetta getur einnig borist í sjálfa sængina og koddann.

Ef þú glímir til dæmis við fótsvepp þá getur hann borist í sængurfatnaðinn og borist í þann sem sefur í sama rúmi og þú.

Ekki má gleyma öllum húðflögunum sem detta af þér á nóttunni. Þær eru sannkölluð veislumáltíð fyrir alla rykmaura sem geta valdið ofnæmi og öndunarörðugleikum.

Það er hægt að koma í veg fyrir þetta með því að þvo sængurfatnaðinn við 60 gráður eða meira vikulega. Þá drepast bakteríur og aðrir óvelkomnir gestir.