2 C
Grindavik
15. maí, 2021

Þjóðareining um sóttvarnir skilað sér

Skyldulesning

Guðni Th. Jóhannesson forseti.

Guðni Th. Jóhannesson forseti.

Skjáskot/RÚV

Þjóðareining um sameiginlegar sóttvarnir hefur dugað okkur vel, en sundurlyndi hefði ekki skilað þeim árangri sem við getum nú unað við. Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti í páskaávarpi sem hann flutti í Ríkissjónvarpinu í kvöld.

Faraldurinn var forsetanum ofarlega í huga en hann minntist þess þegar hann nýtti sama ávarp í fyrra til að ræða faraldurinn sem þá var tiltölulega nýhafinn. „Þá átti ég ekki von á að kveðja mér aftur hljóðs á þessum degi af sama tilefni,“ sagði Guðni.

Hann ítrekaði þakkir til þeirra stétta sem mest hefur mætt á í faraldrinum, sem og þess fólks sem valist hefur til forystu og nefndi þar sérstaklega þríeyki almannavarna. „Að sjálfsögðu sýnist sitt hverjum í þessum efnum. Valdhafar, sérfræðingar og aðrar manneskjur hafa gert sín mistök í þessari sögu allri. Skárra væri það nú,“ sagði Guðni.

Ljóst væri hins vegar að þjóðareining og seigla hefði dugað þjóðinni vel. Hann hvatti landmenn til að halda áfram á braut samstöðu, missa ekki móðinn en reyna ætíð að gera betur.

Mikilvægt að tryggja gloppur á landamærum

„Þegar saga þessa faraldurs verður skráð verður lærdómurinn vísast sá að mestu skipti að fólk sinni sem best eigin sóttvörnum, að allur almenningur fallist á rök vísindafólks um nauðsynlegar aðgerðir og að stjórnvöld fylgi sem mest ráðum sérfróðra,“ sagði Guðni og bætti við mikilvægi þess að hið opinbera og einkaframtak styrki hvort annað og að tryggt sé að gloppur opnist ekki í vörnum við landsteinana.

Forsetinn sagði nauðsynlegt fyrir þjóðina að eiga von. Vitnaði hann þar bæði í Red, strokufangann úr kvikmyndinni Shawshank Redemption, og söngkonuna Lönu del Rey sem bæði hafa tjáð sig um mátt vonarinnar, á öðrum forsendum þó.

Hann minnti á að páskar eru hátíð vonar í kristnum sið, sem boði bjartari tíð með hækkandi sól. „Njótum þess sem landið okkar frábæra hefur að bjóða, njótum þess sem við mannfólkið getum fært hvert öðru í menningu og listum í allri dagsins önn.“

Guðni kom víðar við í ávarpinu. Hann sagði Íslendinga stöðugt áminnta um ægimátt náttúrunnar, veðurofsa, snjóflóð og nú síðast eldgos. „Blessunarlega mun jarðeldurinn í Geldingadölum tæpast ógna lífi og limum nema fólk fari sér að voða,“ sagði Guðni og bætti við að gaman væri að sjá hve margir landsmenn kynnu að búa sig til farar í óbyggðum.

Hann færði björgunarsveitum og lögreglu sérstakar þakkir fyrir þeirra störf í og við gosstöðvarnar. „Á methraða voru stikaðar leiðir, kaðlar lagðir til halds og trausts, bílastæði útbúin. Fyrir þetta ber að þakka.“

Þá benti hann á að gosið gæti orðið fengur fyrir þjóðina, sem sjaldan hefur kunnað illa við góða landkynningu.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir