Á miðnætti á laugardaginn var slökkt á síðustu þremur kjarnorkuverunum í Þýskalandi. Þar með eru Þjóðverjar hættir að nota kjarnorku til raforkuframleiðslu. Ákvörðunin er umdeild meðal þjóðarinnar og sérfræðinga í loftslagsmálum sem hafa sagt að mikilvægt sé að starfrækja kjarnorkuverin áfram til að geta framleitt umhverfisvæna orku. Einnig hefur orkukreppan vegna stríðsins í Úkraínu kynt undir vilja fólks til að nota kjarnorku áfram.
Í mörgum vestrænum ríkjum hafa verið uppi hugmyndir um aukna notkun kjarnorku til orkuframleiðslu vegna þess að hún sé umhverfisvæn. En Þjóðverjar óttast kjarnorkuslys og af þeim sökum eru þeir nú hættir að nota kjarnorku.
Steffi Lemke, umhverfisráðherra, sagði að hættan við kjarnorku sé óendanleg þegar upp er staðið.
Unnið hefur verið að lokun kjarnorkuveranna frá 2002. Ferlinu var hraðað í kjölfar kjarnorkuslyssins í Fukushima í Japan 2011 í kjölfar öflugs jarðskjálfta.