2 C
Grindavik
24. nóvember, 2020

Þór slóg Fylkir út

Skyldulesning


Bjarni Bjarnason skrifar

Önnur viðureign stórmeistara mótsins var viðureign Þórs og Fylkis. Bæði liðin spiluðu í úrvalsdeildinni og því kunnug hvort öðru. Þórsararnir höfðu gert breytingu á leikmannalistanum og fengið Criis (Kristján Daði Pálsson) til liðs við sig. Fljótt kom í ljós að þarna var gjörbreytt lið Þórs mætt til leiks. Fylkir sem hafði yfirhöndina í deildar viðureignunum átti fá svör við þaulæfðum Þórsörum sem sigruðu viðureignina 2 – 0.

Inferno, fyrsta kort, val Fylkis

Þór sem hóf leikinn í sókn(terrorist) sigraði jafna upphafslotu og náði yfirhöndinni í leiknum. Liðsmenn Fylkis voru þó fljótir að spyrna við og var leikurinn jafn framan af. Staðan var 3 – 3 þegar ADHD (Kristófer Daði Kristjánsson) liðsmaður Þórs tók frábæra fléttu. Þór var í undirtölu 2 gegn 4 og spilaði lotuna úr höndum Fylkis, ADHD með 4 fellur.

Markaði þessi lota ákveðin skil í leiknum þar sem Þórsarar gáfu í og Fylkismenn reyndu allt sem þeir gátu til að halda í við þá. Var ReaN (Andri Þór Bjarnason) í lykilhlutverki í sókninni og gerði hann Fylkismönnum lífið leitt en þeir náðu aðeins einni lotu til viðbótar í fyrri hálfleik.

Staðan í hálfleik Þór 11 – 4 Fylkir.

Þórsarar nú í vörn(counter-terrorist) spiluðu þéttan varnarleik sem skilaði þeim upphafslotunum. Fylkismenn svöruðu og komust á skrið með beittum sóknum. Náði Fylkir að tengja saman þrjár lotur þegar að Þórsararnir fengu læsi á sóknarleikinn og skelltu í lás. Með læstri vörn var eftirleikurinn Þórsörunum auðveldur og kláruðu þeir leikinn á sannfærandi máta.

Lokastaðan Þór 16 – 7 Fylkir.

Dust2, annað kort, val Þórs

Allt leit út fyrir að upphafslotan væri Fylkis sem hóf leikinn í sókn. Þeir voru búnir að koma sprengjunni niður og í yfirtölu fjórir gegn tveimur. En með ótrúlegu samspili stálu ADHD og snky (Eiður Eiðsson) lotunni frá þeim. Voru Fylkismenn þó fljótir að hefna harmsins er þeir þvinguðu kaup í næstu lotu og rúlluðu yfir Þór.

Aftur var það ADHD sem að sló Fylki út af laginu. Hann var einn eftir á móti þremur og stal lotunni frá þeim. Eftir að Þórsararnir höfðu tengt saman fjórar lotur var það Criis (Kristján Daði Pálsson) sem að sló Fylkismenn alveg niður. En þeir sóttu á svæði A en hann lokaði á þá með því að fella allt liðið.

Staðan í hálfleik var Þór 11 – 4 Fylkir.

Þórsararnir skullu á þéttri vörn Fylkis í upphafi seinni hálfleiks. Litu Fylkismenn út fyrir að vera við það að finna taktinn þegar að Þórsararnir fundu glufur á varnarleik þeirra. Eftir erfiðar upphafslotur komust Þórsararnir loks í gegn og þurftu þeir ekki margar lotur eftir frábæra frammistöðu í fyrri hálfleik.

Lokastaðan Þór 16 – 8 Fylkir.

Með frábæru samspili og sannfærandi sigri fóru Þórsararnir í undanúrslit og mættu þar deildarmeisturum Dusty.

Innlendar Fréttir