-2 C
Grindavik
23. janúar, 2021

Þórey heldur í góða skapið – Það er auðvitað ekkert knús og kossar núna

Skyldulesning

Þórey S. Guðmundsdóttir fór í sjálfskipaða sóttkví í fyrstu bylgju COVID. Á þessum tíma fór hún nánast í daglega göngutúra með vini sínum og leiddist ekki neitt.

Á tímum COVID-19 hafa flestir glímt við þá áskorun að halda daglegu lífi í föstum skorðum þrátt fyrir takmarkanir á félagslegum samskiptum. Í Árskógum í Reykjavík býr fjöldi eldri borgara sem hafa ekki farið varhluta af þeim samfélagslegu breyting- um sem hafa orðið síðan í vor. DV tók þrjá íbúa þar tali sem reyna markvisst að horfa á björtu hliðarnar og luma jafnvel á ráðum sem aðrir geta tekið sér til fyrirmyndar. Þórey er einn þeirra.

Þórey S. Guðmundsdóttir, fyrrverandi íþróttakennari og formaður Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra, hefur síðustu átta ár kennt svokallaðan stóladans í frístunda- og félagsstarfinu Árskógum í Reykjavík. Eða þar til COVID kom til sögunnar.

„Það skiptir svo miklu máli að hreyfa sig á þessum aldri. Í stóladansinum situr fólk á stólum og ég leiði dans sem samanstendur af ákveðnum hreyfingum sem eru endurteknar. Þetta er auðvitað dottið upp fyrir núna,“ segir hún.

Þórey á tvo syni með fyrri eiginmanni sínum; annar þeirra býr með fjölskyldu sinni í Reykjavík en hinn á Blönduósi. Seinni eiginmaður hennar er látinn og býr hún nú ein að Árskógum.

Daglegir göngutúrar

Í fyrstu bylgju COVID fór hún sjálfskipaða sóttkví ásamt vini sínum og syni hans. Þórey er 86 ára og vinurinn eilítið eldri en sonur hans sem kom með þeim í sóttkví er viðkvæmur í lungum.

„Við höfðum einbýlishús út af fyrir okkur í sjö vikur. Eiginlega var þetta bara nokkuð skemmtilegt. Eiginkona sonarins keypti í matinn fyrir okkur og skildi matinn eftir við útidyrnar. Ég var dugleg að baka og við hjálpuðumst að við að hafa matinn til,“ segir hún.

Daglegt líf þessar sjö vikur var í nokkuð föstum skorðum hjá þeim. „Við borðuðum saman, lásum og horfðum á sjónvarpið. Síðan fórum við í bíltúr og nánast daglega fórum við í góðan göngutúr. Þetta var ánægjulegur tími og okkur leiddist ekki neitt.“

Þau vinirnir óku gjarnan upp að Korpúlfsstöðum og fóru þar í gönguferð. „Golfið lá niðri þannig að sú ös var ekki til staðar. Það var varla nema það væri úrhellisrigning sem við fórum ekki út að ganga.“

Þórey er létt í lund og segist ekkert hafa fundið fyrir þeim kvíða sem margir hafa upplifað síðustu mánuði. „Ég er afskaplega bjartsýn manneskja. Enginn á að þurfa að fá kvíða eða láta sér leiðast. Maður gerir bara sjálfur eitthvað í málunum og það hef ég gert,“ segir hún af röggsemi.

Les Hlaupabók barnabarnsins

Í seinni bylgju COVID hefur hún haldið sig mikið heima en þó hitt nánustu vini og ættingja á höfuðborgarsvæðinu. „Helsta breytingin er að maður hittir færra fólk. Ég hef verið dugleg að hringja í gömul skólasystkini og athuga hvernig þeim líður. Ég hitti nú reglulega son minn sem býr hér en spjalla minnst einu sinni eða tvisvar í viku við þann sem býr á Blönduósi í gegn um tölvuna. Þannig sjáum við hvort annað og það er næstum eins og að hittast. Það er auðvitað ekkert knús og kossar núna,“ segir Þórey glaðlega.

Hún er enn dugleg að lesa og lesefnið afar fjölbreytt. Hún hefur nýlokið við bókina Næturgalann, örlagasögu úr seinni heimsstyrjöldinni, en er nú að lesa Hlaupabókina eftir Arnar Pétursson sem er sonarsonur hennar, íþróttakennarans fyrrverandi. Arnar er sjöfaldur Íslandsmeistari í maraþoni og greinilegt að íþróttaáhuginn helst í ættinni. „Já, hann á ekki langt að sækja þetta,“ segir hún hlæjandi.

Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV 27. nóvember.

Sjá einnig:

https://www.dv.is/fokus/2020/12/05/thad-fyrsta-sem-eg-geri-morgnana-er-ad-segja-vid-sjalfa-mig-ad-thetta-verdi-godur-dagur/

https://www.dv.is/fokus/2020/12/05/madur-kodnar-svolitid-nidur-thegar-madur-er-svona-einn/

Innlendar Fréttir