-2 C
Grindavik
23. janúar, 2021

Þórir segir Noru Mørk einstaka keppniskonu og efni í góðan þjálfara

Skyldulesning

Þórir Hergeirsson segir að innkoma Noru Mørk í norska handboltalandsliðið á EM 2020 hafi skipt sköpum. Hann segir hana mikla keppnismanneskju sem gæti náð langt sem þjálfari þegar hún leggur skóna á hilluna.

Eftir að hafa misst af EM 2018 og HM 2019 kom Mørk aftur inn í norska landsliðið fyrir EM 2020 í Danmörku. Skyttan öfluga lék frábærlega á mótinu og var markahæsti leikmaður þess með 52 mörk.

„Það var geysilega mikilvægt að fá hana inn. Hún er alveg einstök keppniskona. Hún þorir að vinna leiki og þolir að tapa þeim. Hún þolir reyndar ekki að tapa en hún getur gert mistök en þau detta bara af henni. Hún fer bara inn í næstu stöðu með sömu hörku og vilja,“ sagði Þórir í samtali við Vísi.

Mørk, sem er 29 ára, hefur tekið þátt í að vinna fimm af þeim sjö stóru titlum sem Noregur hefur unnið undir stjórn Þóris en Selfyssingurinn tók hana inn í landsliðið 2010.

Þórir segir að Mørk gæti náð langt í þjálfun ef hún ákveður að feta þá braut þegar hún hættir í handbolta.

„Hún er fljót að læra og les leikinn mjög vel. Þetta er svakalegt þjálfaraefni. Ég vona að við getum fengið hana til að þjálfa þegar hún hættir. Hún er með alveg svakalegan handboltahaus og mikil keppniskona og það smitar út frá sér,“ sagði Þórir.

Klippa: Þórir um Noru Mørk

Innlendar Fréttir