2 C
Grindavik
29. nóvember, 2020

Þórólfur hefur aldrei séð annað eins – „Þetta er mesta vandamál sem ég hef séð“

Skyldulesning

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, segir að þrátt fyrir að fá ný smit hafi greinst undanfarna daga þá sé enn full ástæða til að fara hægt um gleðinnar dyr og nauðsynlegt að gæta enn að einstaklings sóttvörnum. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni.

„Staðan er bara þokkaleg. Þetta er allt í rétta átt sýnist mér yfir helgina, en reyndar er það þannig að það eru alltaf tekin færri sýni um helgar,“ segir Þórólfur.

Nokkur umræða hefur skapast um biðraðir fyrir utan verslanir og hafa ýmsir velt fyrir sér ágæti þess að halda fólki í þéttum röðum fyrir utan verslanir sem ekki selji matvörur þar sem verslanir fái bara að hleypa 10 manns inn í einu.

Þórólfur hefur ekki áhyggjur af biðröðunum og telur að sóttvörnum sé ekkert endilega betur gætt með því að koma í veg fyrir að þær myndist.

„Ég er nú ekkert endilega viss um það. Menn geta alltaf fundið einhverja ástæðu til að kvarta og vera á móti, ef menn vilja. En ég held að við þurfum bara að passa okkur á þessum hópamyndunum hvort sem þær eru úti eða inni.“

Verkefnið fram undan sé að lifa með veirunni þar til að bóluefni kemur til landsins sem ætti þó að vera fyrr fremur en síðar í ljósi stórra framfaraskrefa í þeim efnum undanfarna daga.

Fréttir hafa þó verið fluttar af því að aukaverkanir af bóluefninu geti verið nokkuð hvimleiðar. Þórólfur bendir á að slíkt eigi við um flestar bólusetningar. Enginn afsláttur hafi verið gefinn af rannsóknum og gæðaprófunum þó svo hratt hafi þurft að ganga til verks og einstaklingar verði að meta hvort þeir vilji hætta á að verða alvarlega veikir vegna COVID-19 og jafnvel þurfa að takast á við langtímaeftirköst, eða hætta á að vera meðal þeirra fáu sem fá aukaverkanir vegna bóluefnanna.

Aðspurður um hvaða aðilum bóluefnið standi fyrst til boða svarar Þórólfur:

„Það verður byrjað í 101 Reykjavík, nei nei. Það eru framvarðarsveitirnar okkar, fólk í heilbrigðisgeiranum og svo viðkvæmir hópar síðan munum við fikra okkur inn í samfélagið“

Þórólfur segir COVID-19 þá verstu smitsótt sem hann hafi séð á sínum ferli, þó svo aðrir sjúkdómar séu með hærri dánartíðni. COVID-19 sé svo útbreitt að Þórólfur veit ekki um annað eins.

„Þetta er svo útbreitt að þetta er mesta vandamál sem ég hef séð.“

Innlendar Fréttir