2.3 C
Grindavik
29. janúar, 2023

Þórólfur sent ráðherra 93 minnisblöð

Skyldulesning

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og minnisblaðasmiður.

Sóttvarnalæknir hefur, frá 13. mars 2020, sent heilbrigðisráðherra 93 minnisblöð um ýmis atriði er lúta að kórónuveirufaraldrinum, þar á meðal vegna samkomutakmarkana, einangrunar og sóttkvíar og takmarkana á landamærum.

Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins. Þingmaðurinn spurði um minnisblöð og ákvarðanir ráðherra í faraldrinum.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Óttar

Willum bendir á að hann og Svandís Svavarsdóttir hafi bæði verið heilbrigðisráðherra á tíma minnisblaða Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og segir Willum þau bæði hafa í meginatriðum farið að tillögum sóttvarnalæknis um ráðstafanir vegna faraldursins. 

Myndi útheimta mikla vinna að fara ofan í hvert einasta minnisblað

„Í þeim tilvikum þegar ráðherra hefur vikið frá tillögum sóttvarnalæknis hefur það verið gert með hliðsjón af lagaheimildum, jafnræðisreglum, tilefni og nauðsyn. Í ljósi þess fjölda minnisblaða sem sóttvarnalæknir hefur sent ráðherra og þess fjölda reglugerða sem settar hafa verið í kjölfar þeirra myndi það útheimta mikla greiningarvinnu að fara ofan í hvert einasta minnisblað og bera saman við hverja útgefna reglugerð ráðherra í þeim tilgangi að greina hverja breytingu, stóra sem smáa, frá minnisblöðum sóttvarnalæknis. Ráðuneytið býr ekki yfir slíkri greiningu,“ segir í svari Willums þar sem Bergþór óskar eftir nákvæmri greiningu á því hvenær farið var eftir tillögu sóttvarnalæknis og hvenær ekki eða að hluta.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Spurður um með hvaða hætti ráðherra uppfyllti rannsóknarskyldu sína við hverja ákvörðun um sóttvarnaaðgerðir segir Willum að ekki sé sérstaklega kveðið á um hvernig haga skuli rannsókn mála áður en ráðherra tekur ákvörðun um opinberar sóttvarnaráðstafanir á grundvelli sóttvarnalaga, nema að því er varðar tillögur sóttvarnalæknis. 

Svandís Svavarsdóttir var heilbrigðisráðherra frá upphafi faraldurs og þar til …

Svandís Svavarsdóttir var heilbrigðisráðherra frá upphafi faraldurs og þar til í lok nóvember á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í svarinu segir enn fremur að meðferð ráðherra á tillögum sóttvarnalæknis hafi að meginstefinu lotið svipaðri rannsókn þótt einhver munur hafi verið á milli þeirra 167 reglugerða sem settar hafi verið vegna opinberra sóttvarnaráðstafana frá upphafi faraldurs.

Mikið samráð vegna aðgerða

„Almennt má segja að við setningu reglugerða af þessum toga hafi ráðherra eða fulltrúar ráðuneytisins m.a. verið í samskiptum við Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og eftir atvikum aðrar heilbrigðisstofnanir, í því skyni að afla upplýsinga um viðbragðshæfni stofnananna og stöðu þeirra á viðkomandi tímapunkti. Þá sitja fulltrúar ráðuneytisins fundi stýrihóps viðbragðsaðila um Covid-19, sem hefur fundað misört í faraldrinum, stundum á hverjum virkum degi en að undanförnu tvisvar í viku, þar sem farið er yfir stöðu faraldursins og horfur framundan,“ skrifar Willum og heldur áfram:

„Í hópnum eru sóttvarnalæknir, landlæknir, ríkislögreglustjóri, forstjóri Landspítala, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og aðrir starfsmenn þessara stofnana auk fulltrúa smitrakningarteymis, Rauða krossins sem rekstraraðila sóttvarnahúsa, forsætisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Upplýsingar sem fram koma á þessum fundum eru jafnframt lagðar til grundvallar ákvörðunum ráðherra. Þá hefur ráðherra einnig litið til ráðlegginga frá alþjóðlegum stofnunum, til að mynda Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og Sóttvarnastofnun Evrópu, auk þess að fylgjast með og afla upplýsinga um stöðu faraldursins og aðgerða í nágrannaríkjum.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir