8.4 C
Grindavik
20. júní, 2021

Þórólfur starfar að heiman í sóttkvínni

Skyldulesning

Þórólfur Guðnason og Alma D. Möller landlæknir.

Þórólfur Guðnason og Alma D. Möller landlæknir.

Ljósmynd/Almannavarnir

Engin fleiri kórónuveirusmit hafa komið upp á sóttvarnasviði embættis landlæknis en það eina sem kom upp í gær. Þórólfur Guðnason og tveir aðrir starfsmenn sviðsins fóru í sóttkví vegna þess. Hann starfar nú að heiman í sinni sóttkví en fyrsta sýnataka hjá honum reyndist neikvæð. 

„Það eru einhverjir sem fara í sýnatöku í dag og þá kannski skýrist það betur. Það hefur ekki komið upp annað smit en við sjáum hvað gerist í dag,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis. 

Aðspurður segir Kjartan að Alma D. Möller landlæknir hafi ekki átt í samskiptum við starfsmanninn á þeim tíma sem talið er að hann hafi verið smitaður.  

„En við þurfum að sjálfsögðu að endurmeta stöðuna ef það koma upp einhver ný smit. Það þótti ekki þörf á því að aðrir en þessir þrír, þar á meðal Þórólfur, færu í sóttkví út frá þessu smiti.“

Hefur ekki áhrif á starfsemi embættisins

Hefur þetta smit áhrif á starfsemi embættis landlæknis?

„Í sjálfu sér ekki. Við erum langflest að vinna heima. Fyrir utan það þá eru mjög umfangsmiklar mótvægisaðgerðir hjá okkur. Það er hólfaskipting og umfram það þá er farið gríðarlega varlega hjá okkur. Það er einmitt ástæðan fyrir því að þegar kemur upp smit eins og þetta þurfa ekki margir að fara í sóttkví. En svona gerist þetta. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir smit, það er bara hægt að koma í veg fyrir að þau dreifist mikið en við þurfum bara að bíða og sjá hvað gerist í dag,“ segir Kjartan.

Eins og áður segir er Þórólfur starfandi í sinni sóttkví. Spurður hvort gert sé ráð fyrir því að staðgengill geti komið í hans stað ef hann veikist segir Kjartan:

„Það er alveg gert ráð fyrir því sama hvort heimsfaraldur er í gangi eða ekki. Við eigum alveg möguleika á því að einhver stígi inn og taki við ef þess er þörf. Alma hefur áður stigið inn á upplýsingafundum til dæmis. Síðan eru á sóttvarnasviði starfandi sérfræðingar í smitsjúkdómum sem geta stigið inn. Eins og staðan er núna vinnur Þórólfur bara í sinni sóttkví.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir