Þorskverð 11% hærra en í mars

0
96

Þeir sem selja þorsk á fiskmörkuðunum geta fagnað háu verði. Kristinn Benediktsson

Meðalverð á slægðum þorski hefur verið 563,54 krónur á kíló á fiskmörkuðunum það sem af er apríl samkvæmt tölum Reiknistofu fiskmarkaða. Það er um 11% hærra meðalverð en var á fiskmörkuðunum í mars og 8% hærra en meðalverð var fyrstu þrjá mánuði ársins þegar það var 522,4 krónur á kíló.

Stöðvun veiða vegna hrygningar virðist ekki vera eina skýringin á þessari þróun þar sem seld hafa verið rúm 444 tonn af slægðum þorski á fiskmörluðunum það sem af er apríl, en það er álíka mikið magn og var selt allan marsmánuð.

Það er því nokkuð sem bendir til þess að verð á þorski verði áfram hátt á fiskmörkuðunum þrátt fyrir að veiði fari á fullt í maí. Sérstakelga ber að líta til þess að veiðiheimildirnar séu af skornum skammti, en aðeins eru tæp 42 þúsund tonn eftir af veiðiheimildum í þorski.