10.3 C
Grindavik
29. september, 2022

Þörungamiðstöð tekur til starfa á Reykhólum

Skyldulesning

Hólmfríður Sveinsdóttir mun móta starfsemi Þörungamiðstöðvar Íslands.

Hólmfríður Sveinsdóttir mun móta starfsemi Þörungamiðstöðvar Íslands. mbl.is/Hari

Í byrjun febrúar undirrituðu Þörungaverksmiðjan hf. og Reykhólahreppur stofnsamning vegna Þörungamiðstöðvar Íslands á Reykhólum við Breiðafjörð.

Í framhaldinu undirrituðu Matís, Reykhólahreppur og Þörungaverksmiðjan viljayfirlýsingu um samstarf í rannsóknum á vegum nýstofnaðrar miðstöðvar.

Þörungamiðstöð Íslands er ætlað að vera hlutafélag með lögheimili í Reykhólahreppi. Samkvæmt drögum að stofnsamningi er tilgangur félagsins m.a. að stuðla að aukinni þekkingu og safna í þekkingarbanka um öflun og nýtingu sjávarþörunga við Ísland, bæði ræktaðra og villtra.

Auka á verðmætasköpun

Einnig að stunda rannsóknir með áherslu á sjávarþörunga, vera í samstarfi við rannsóknarstofnanir og fyrirtæki, veita þjónustu til rannsóknarstofnana og fyrirtækja, taka þátt í mennta- og fræðastarfi, efla ræktun þörunga og þróa afurðir úr þeim til að auka verðmætasköpun úr þessu sjávarfangi. Um leið verði stuðlað að fjölbreyttari atvinnu í Reykhólahreppi.

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir mun móta starfsemi Þörungamiðstöðvar Íslands. Hólmfríður stýrði uppbyggingu á rannsóknarstarfsemi í kringum sjávarútveg í Verinu á Sauðárkróki þar sem starfstöð Matís á Sauðárkróki var mikilvæg svo að sprotafyrirtækinu Protis var hleypt af stokkunum. Hólmfríður var hugmyndarsmiður Protis-fiskprótínframleiðslunnar. Protis var fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem setti upp framleiðsluferil fyrir þurrkað fiskprótín og fiskkollagen sem unnið er úr hliðarafurðum fiskvinnslu og selt undir vörumerkinu Protis fiskprótín, að því er fram kemur á heimasíðu Matís.

Þörungaverksmiðjan Hefur verið burðarás í atvinnulífinu á Reykhólum.

Þörungaverksmiðjan Hefur verið burðarás í atvinnulífinu á Reykhólum. Ljósmynd/Aðsend

Þörungaverksmiðjan var stofnuð árið 1975 og er sú eina sinnar tegundar á landinu. Fyrirtækið er mikið mannvirki og er framleiðsla þess lífrænt vottuð. Verksmiðjan nýtir þörungagróður á grunnsævi Breiðafjarðar og jarðhitann til að þurrka þang- og þaramjöl. Þangið er skorið með fljótandi sláttuvélum og flutt í netum til verksmiðjunnar. Verksmiðjan er stærsti einstaki vinnuveitandinn í Reykhólahreppi, að því er fram kemur í alfræðiritinu Wikipediu.

Með aukinni tækniþróun hafi skapast mikil tækifæri til fjölbreyttari nýtingar á þörungum og vinnslu verðmætra efna í matvæla-, snyrti- og lyfjaiðnað með tilheyrandi verðmæta- og atvinnusköpun.

Leitun er að heppilegri stað á landinu fyrir rannsóknarstarfsemi á hagnýtri vöruþróun á sjávarþörungum. Við Breiðafjörð er um fjórðungur strandlengju Íslands og vaxtarskilyrði einstök, segir á heimasíðu Matís.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir