Þótti mikið til hans koma á yngri árum en svo fór allt úrskeiðis – Fangelsi og þriggja ára bann – DV

0
54

Andy Ferrell var eitt sinn afar efnilegur knattspyrnumaður. Leiðin lá hins vegar snemma niður á við. Hann hefur verið bannaður frá öllum völlum Englands eftir uppákomu nýlega.

Hinn 39 ára gamli Ferrell var í unglingaakademíu Newcastle á sínum tíma. Hann fékk sinn fyrsta atvinnumannasamning þegar Sir Bobby Robson var stjóri. Hann náði hins vegar aldrei í aðalliðið og spilaði í utandeildum.

Ferrell átti þátt í slagsmálum á milli hóps stuðningsmanna Newcastle og Chelsea fyrir utan Black and While Bull krána nálægt St James’ Park, heimavelli Newcastle, og hefur nú verið dæmdur í þriggja ára bann frá öllum völlum Englands.

Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem Ferrell kemur sér í vandræði. Á yngri árum sat hann um skeið í fangelsi fyrir að selja kókaín. Ætlaði hann að vinna sér inn smá pening þar sem hann var blankur.

Á þeim tíma sagðist Ferrell ekki hafa hugsað út í afleiðingarnar og að hann hafi aldrei snert eiturlyf.