2.3 C
Grindavik
27. janúar, 2023

Þrír feitir bitar boðnir út í Leifsstöð

Skyldulesning

Rekstur tveggja veitingastaða í Leifsstöð verður boðinn út á næstunni.

Rekstur tveggja veitingastaða í Leifsstöð verður boðinn út á næstunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var töluverður áhugi og við erum í samtali við markaðinn til að móta tækifærið enn betur,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslana og veitinga hjá Isavia.

Isavia auglýsti nýverið að fyrir höndum væri útboð á rekstri gleraugnaverslunar í Leifsstöð og var áhugasömum boðið að taka þátt í markaðskönnun af því tilefni. Optical Studio hefur rekið gleraugnaverslun í Leifsstöð frá árinu 1998 og segir Kjartan Kristjánsson, eigandi fyrirtækisins, að hann muni að sjálfsögðu sækjast eftir því að starfrækja verslun þar áfram. „Ég er ekki á útleið, ekki svo ég viti til,“ segir hann.

Kjartan segist hafa farið í gegnum ferli sem þetta mörgum sinnum áður. „Ég var fyrstur til að opna fyrirtæki í einkarekstri í Leifsstöð og er höfundurinn að þessu gleraugnakonsepti þar. Svona verslun á sér enga fyrirmynd annars staðar, ég hef alla vega ekki heyrt af því á mínum 24 árum þarna að aðrir framleiði gleraugu á 15 mínútum í flugstöð. Því er ég auðvitað hugsi yfir því að þeir skuli taka mína hugmynd og bjóða hana reglulega út. Það er sérkennileg aðferð en ég hef látið það yfir mig ganga.“

Isavia hefur sömuleiðis boðað að rekstur á tveimur veitingastöðum í Leifsstöð verði boðinn út á næstunni. Ekki fæst uppgefið hjá fyrirtækinu fyrr en útboðsgögn verða gefin út um hvaða veitingastaði er að ræða. Morgunblaðið fékk þær upplýsingar einar að um væri að ræða „fyrsta flokks veitingastaði á annarri hæð í norðurbyggingu sem finna má strax eftir öryggisleit“.

Penninn flytur sig um set og verður verslunin stækkuð um …

Penninn flytur sig um set og verður verslunin stækkuð um þriðjung. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnhildur Erla hjá Isavia segir að þessir tveir veitingastaðir verði reknir af sama aðila. „Við förum reglulega í útboð hjá okkur og erum núna að leitast við að gera samning til næstu fimm ára við einn rekstraraðila sem þá rekur báða staðina,“ segir hún. „Annar staðurinn verður stór og þarf að ná til breiðs hóps af fólki, bæði þeirra sem eru að flýta sér og þeirra sem hafa lengri tíma, hinn staðurinn verður smærri og þar verður horft til afslappaðrar stemningar og vörúrvalið tengt við skandinavíska matargerð.“

Reksturinn í Leifsstöð hefur vitaskuld mótast af kórónuveirufaraldrinum síðustu tvö ár með tilheyrandi samdrætti. Talsverð hreyfing er nú á verslunar- og veitingarýmum og nýverið var boðin út aðstaða og rekstur bókaverslunar þar. PenninnEymundsson átti hæsta tilboðið í því útboði og mun að sögn Gunnhildar flytja í annað bil á flugvellinum og stækka um þriðjung.

Fréttin birtist í Morgunblaðinu 16. mars.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir