8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Þrír yfirmenn ákærðir vegna banaslyss í Keflavík

Skyldulesning

Þrír yfirmenn hjá Plastgerð Suðurnesja hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir manndráp af gáleysi, eða hlutdeild í manndrápi af gáleysi í tengslum við banaslys sem varð í verksmiðjunni í júlí árið 2017.

Samkvæmt ákæru málsins hafði öryggisbúnaður í frauðpressuvél verið gerður óvirkur, þrátt fyrir að starfsmenn færu reglulega inn í vélina til að hreinsa hana. Gangsetti svo einn mannanna vélina aftur eftir að hún hafði verið stöðvuð, án þess að gæta að hvort einhver væri í vélinni, en við það klemmdist Pawel Giniewicz á milli móta í vélinni og lést hann af áverkum þeim sem hann hlaut.

Verkstjóri hjá verksmiðjunni er ákærður fyrir manndráp af gáleysi fyrir að hafa gangsett vélina og að hafa gert öryggisbúnaðinn óvirkan.

Þá eru framkvæmdastjóri og annar verkstjóri, sem báðir eru jafnframt eigendur verksmiðjunnar, ákærðir fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi fyrir að hafa samþykkt að fyrri verkstjórinn gerði öryggisbúnaðinn óvirkan, þrátt fyrir að vita að reglulega færu starfsmenn inn í vélarnar til að hreinsa þær. Er framkvæmdastjórinn jafnframt ákærður fyrir að hafa gefið fyrirmæli um að gangsetja allar vélarnar umræddan dag og að hafa ekki látið gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, áhættumat og áætlun um heilsuvernd.

Móðir og bróðir hins látna fara jafnframt fram á skaðabætur upp á 4,5 milljónir vegna málsins.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á föstudaginn.

Innlendar Fréttir