Frakkland og Króatía tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum EM kvenna í handbolta sem fer fram í Danmörku.
Króatía vann sigur á Þýskalandi. Eftir að staðan var 12-12 í hálfleik gengu Króatarnir á lagið í síðari hálfleik og unnu að endingu, 23-20.
Króatía er því með átta stig í milliriðli tvö og fer því áfram úr milliriðli tvö með Noregi en Þýskaland er á leið heim.
Í milliriðli eitt eru Frakkar öruggir áfram eftir sigur á Svíum, 31-25. Staðan var einnig jöfn í þeim leik, 14-14, en Frakkarnir voru sterkari í síðari hálfleik.
Kristín Andrésdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Svía. Isabelle Gullden var markahæst með fimm mörk en Estelle Nze Minko var markahæst í franska liðinu með sex mörk.
Frakkarnir eru með níu stig en Rússar og Danir berjast um síðasta sætið í undanúrslitunum síðar í kvöld er þau eigast við.