Þrjú túnfiskveiðileyfi í boði í ár

0
133

Túnfiskveiðar gengu þokkalega hjá Vísi árin 2014 til 2016 en skiluðu ekki nægum ágóða. Spurning hvort túnfiskveiðar hefjist á ný. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Fiskistofa er búin að opna fyrir umsóknir um leyfi til línuveiða á bláuggatúnfiski og verða að hámarki gefin út þrjú leyfi og er íslenskum leyfishöfum heimilt að veiða allt að 212 tonnum af bláuggatúnfiski.

Aflaverðmætið gæti orðið um 2,5 milljarðar króna, að því er fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins.

Til þessa hefur lítill áhugi verið á túnfiskveiðum, að undanskildum árunum 2014 til 2016, þegar línuskip Vísis í Grindavík var á túnfiskveiðum. Túnfiskurinn þykir eftirsótt hráefni og hafa skip frá Asíu lagt leið sína á miðin suður af Íslandi í leit að bláuggatúnfiski.

Japanska heildsalan Chuo Gyorui Co. gefur upp að verð á kílói af bláuggatúnfiski úr Atlantshafi sé á bilinu fjögur til ellefu þúsund yen, eða jafnvirði um 4.165 til 11.450 íslenskra króna. Meðalverð á mörkuðum sé um sex þúsund yen.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.