2.3 C
Grindavik
29. janúar, 2023

Þungar áhyggjur af stöðunni í Úkraínu

Skyldulesning

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundi Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar í Lundúnum í …

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundi Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar í Lundúnum í dag. AFP

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði með leiðtogum ríkja sem mynda Sameiginlegu viðbragðssveitina, (Joint Expeditionary Force, JEF), í Lundúnum í dag.

„Eðli málsins samkvæmt var umræðuefni fundarins innrás Rússa inn í Úkraínu,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Mikilvægast að halda samstöðunni sterkri

Þannig hafi fundurinn verið ætlaður til samráðs og samstillingar þeirra ríkja sem tilheyri Sameiginlegu viðbragðssveitinni í tengslum við þá „skelfilegu“ stöðu sem nú er uppi í Úkraínu, að sögn Katrínar, en hún segir Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, einnig hafa ávarpað fundargesti í gegnum fjarfundarbúnað.

„Í stuttu máli sagt var bæði verið að ræða þessi hefðbundnu öryggismál, efnahagslegar ráðstafanir og refsiaðgerðir, og síðan mögulegar langtíma afleiðingar stríðsins, bæði efnahagslegar og samfélagslegar, með hliðsjón af öryggismálum í Evrópu.“

Spurð hvernig hljóðið í leiðtogum JEF-ríkjanna hafi verið á fundinum yfir stöðunni sem nú er uppi í Úkraínu segir Katrín hafa mátt greina mikinn samhljóm meðal fundarmanna. Þeir hafi allir þungar áhyggjur af stöðunni.

Frá fundi Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar í dag.

Frá fundi Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar í dag. AFP

„Það er þó auðvitað líka ljóst hvað samstaða þessara ríkja hefur verið mikil, bæði hvað varðar efnahagslegar refsiaðgerðar gagnvart Rússlandi sem og hinar ýmsu aðgerðir til stuðnings Úkraínu. Á fundinum fór hver og einn leiðtogi yfir framlag sitt og sinnar þjóðar í þessum efnum.“

Hvað þróun stríðsins síðastliðna daga varðar segir Katrín hana hafa sýnt hvað samstaða vestrænna ríkja hefur verið „eindregin“ og viðbrögð þeirra við innrás Rússa inn í Úkraínu verið „skýr“. Á þessum tímapunkti sé svo mikilvægast að finna út úr því hvernig hægt sé að halda þessari samstöðu sterkri.

„Þessi samstaða birtist auðvitað í þeim umfangsmiklu refsiaðgerðum sem ákveðið hefur verið að beita Rússum og eru áfram til umræðu, þ.e. útfærslurnar á þeim. Á fundinum í dag var bæði verið að ræða hvernig gengur að útfæra þær aðgerðir sem þegar hafa verið ákveðnar og hvað meira sé hægt að gera.“

Óbreyttir borgarar fórnalömbin í stríðinu

Eftir því sem stríðsátökin hafa dregist á langinn hafa rússneskar hersveitir beint árásum sínum í auknum mæli að óbreyttum borgurum en þeir hafa m.a. varpað sprengjum á barnaspítala og leikskóla víðsvegar um Úkraínu. Katrín segir „skelfilegt“ að sjá hernað af þessu tagi, sem margir hafi talið heyra sögunni til í Evrópu, og að allir leiðtogar JEF-ríkjanna fordæmi hann harkalega.

„Fórnalömbin í þessum átökum eru óbreyttir borgarar, venjulegt fólk sem hefur ekkert af sér gert nema að vera til. Við ræddum málefni flóttafólks frá Úkraínu á fundinum og hvað það skiptir miklu máli að við leggjum öll okkar af mörkum í því að taka á móti fólkinu sem flýr þessar hörmungar.“

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um rík­is­lög­reglu­stjóra hafa sam­tals 179 ein­stak­ling­ar með úkraínskt rík­is­fang sótt um vernd á Íslandi frá því inn­rás Rússa í Úkraínu hófst þann 24. fe­brú­ar síðastliðinn. Þá er gert ráð fyrir því að um 300 flóttamenn til viðbótar muni sækja um vernd hér á landi næsta mánuðinn. Spurð segir Katrín þennan fjölda ekki koma sér á óvart, enda sé hann í takt við þá spá sem lagt var upp með í byrjun.

Flóttamenn frá Úkraínu á landamærum Póllands 13. mars síðastliðinn.

Flóttamenn frá Úkraínu á landamærum Póllands 13. mars síðastliðinn. AFP

Hvort það komi til greina að framlengja dvalarleyfi þess flóttafólks sem kemur frá Úkraínu og hlýtur vernd hér á landi, segir Katrín það þurfa að koma í ljós, en sem stendur fær það dvalarleyfi til eins árs með möguleika á framlengingu til þriggja ára.

„Við vitum ekki hversu lengi þetta ástand mun vara en við vitum að eftir því sem það dregst meira á langinn getum við átt von á því að fólk dvelji lengur hér og jafnvel fari ekki aftur til baka.

Því flestir sem flýja ætla sér auðvitað til baka um leið og stríðinu er lokið. Við þurfum bara að hafa mjög fjölbreyttar sviðsmyndir til að geta brugðist við þessu með sem bestum hætti.“

Segir íslensk stjórnvöld hafa tekið skýra afstöðu

Spurð út í fregnir af því að yfirvöld í Kína hafi sýnt fram á vilja til að rétta Rússum hjálparhönd, eins og Rússar óskuðu eftir, vegna innrásarinnar í Úkraínu, segir Katrín þær hafa verið til umræðu á fundi Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar í dag en að ekkert skýrt liggi fyrir í þeim efnum ennþá.

„Við þurfum aðeins að bíða og sjá hvernig þau mál þróast.“

Þann 8. mars tilkynnti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ákvörðun sína um að afturkalla undanþágu sem hefur verið í gildi fyrir rússneska togara til löndunar og umskipunar í íslenskum höfnum. Í gær greindu norsk yfirvöld hins vegar frá því að þau hyggðust ekki banna rússneskum skipum að sækja þjónustu eða landa í norskum höfnum. Katrín kveðst ekki telja íslensk stjórnvöld hafa verið of fljót á sér að afturkalla undanþáguna, innt eftir því.

„Þetta var bara algerlega skýr ákvörðun sem matvælaráðherra kynnti. Þetta endurspeglar þessa skýru afstöðu sem íslensk stjórnvöld hafa tekið í þessu máli.

Við vonum auðvitað bara að það finnist einhver lausn á þessum átökum. Það er krafan núna, að þessu stríði linni, áður en nokkuð annað verður rætt.“

Aðfaranótt 28 febrúar flutti fraktflutningavél á vegum íslenskra stjórnvalda búnað til notkunar í Úkraínu en í tilkynningu utanríkisráðuneytis um málið sagði að ákall um aðstoð hafi borist frá Úkraínu vegna neyðarástandsins í landinu í kjölfar innrásar rússneska hersins og að óskað hafi verið eftir ýmiskonar aðstoð, hergögnum, hlífðarbúnaði, hjúkrunarvörum og fleiru.

Aðspurð segir Katrín engar ákvarðanir hafa verið teknar af hálfu íslenskra stjórnvalda um frekari aðstoð af þessu tagi.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir